Skoðun

Öruggari með SafeTra­vel appinu

Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar

Nýtt app var kynnt á dögunum sem ætlað er að stuðla að auknu öryggi á ferðalögum hér á landi, SafeTravel appið. Það einfaldar ákvarðanatöku við akstur á Íslandi og veitir upplýsingar í rauntíma um ástand og færð á vegum landsins, á ensku og íslensku. Sambærilegt app hefur ekki verið til fram að þessu.

Upplýsingar um ástand vega í rauntíma

Lengi hefur verið þörf á að geta með auðveldum hætti fylgst með ástandi vega á Íslandi, sér í lagi yfir vetrartímann. Áhugi Íslendinga á veðrinu er ekki nýtilkominn og stafar ekki hvað síst af nauðsyn. Við sem hér búum þekkjum það vel að veður getur breyst skyndilega og haft áhrif á færð og ferðalög. En erlendir ferðamenn gera sér ekki endilega grein fyrir hversu hratt veður skipast í lofti.

Ljóst er að hvort sem um er að ræða heimamenn eða gestkomandi þá kemur sér vel að hafa aðgengilegar upplýsingar um ástand vega í rauntíma.

Hvernig virkar appið?

SafeTravel appið birtir notendum kort af Íslandi og gerir þeim kleift að merkja inn væntanlega ferð á vegum landsins. Appið teiknar upp leiðina, sýnir ástand vega og varar við ferðalögum ef ófært er einhvers staðar á leiðinni. Þannig má auðveldlega fylgjast með færð á vegum og fá tilkynningar í símann ef aðstæður breytast. SafeTravel appið veitir þessar upplýsingar í rauntíma og notaðir eru litakóðar til að gefa til kynna ástand vega. Nánar er farið í þýðingu mismunandi litakóða í appinu.

Viðvaranir og upplýsingar koma síðan fram eftir því sem við á. Í appinu er einnig að finna sniðugt bílpróf sem gott er að renna yfir til að skerpa á kunnáttunni og kynna sér aðstæður í umferðinni. Einnig er listi yfir íslensk vegaskilti og þýðingu þeirra. Appið er hugsað bæði fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn og er því bæði á ensku og íslensku.

Íslenskt hugvit

Tilgangurinn með gerð appsins er fyrst og fremst að stuðla að öryggi ferðalanga á Íslandi en í SafeTravel appinu sameinast forvarnir, ferðalög, nýsköpun og tækni. Appið er þróað af Stokki hugbúnaðarhúsi í samstarfi við SafeTravel og Sjóvá sem kostar gerð appsins. Vonir standa til að sem flestir nýti sér SafeTravel appið þegar ferðast er um landið en hægt er að sækja appið endurgjaldslaust í App Store eða Google Play. Markmiðið er að allir skili sér heilir heim.

Höfundur er verkefnastjóri forvarna hjá Sjóvá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×