Skoðun

Heimilisuppbótin sem gufaði upp

Benedikt Sveinsson skrifar

Á síðasta ári leitaði til mín 67 ára langveikur eignalaus öryrki. Erindið var að fá aðstoð við að sækja um svokallaða heimilisuppbót, en það er greiðsla sem býðst öryrkjum sem búa einir á heimili. Var umsóknin afgreidd og töldum við að með því myndi hljótast búbót. En nú nýlega leitaði þessi sami einstæðingur til mín á nýjan leik og var erindið að biðja um hjálp við að komast í heimabanka til að greiða reikninga, en hann á hvorki snjallsíma né tölvu.

Er við í sameiningu höfðum opnað heimabankann og greitt þá reikninga sem komnir voru á gjalddaga blasti hins vegar einnig við okkur merkileg sjón. Heildarmánaðarlaun þessa manns, sem hann fær eftir skatt eru 286.394 krónur. Hans einu tekjur koma frá Tryggingarstofnun ríkisins og eru með öllum mögulegum uppbótum fyrir skatt 343.693 krónur á mánuði. Af þessari upphæð reiknast skattur upp á 108.091 krónur, sem að frádregnum persónuafslætti er 57.299. Heimilisuppbótin sem öryrkinn fékk úthlutað nam hins vegar 53.948 krónum, og fór því öll í skatt. 

Fyrir utan hið kerfislæga tilgangsleysi og hálfgerðan absúrdisma þessa tilfellis, stendur einnig eftir sú staðreynd að öryrkjum þessa lands er skömmtuð skammarlega lág framfærsla.

Ég vil með þessari ábendingu í aðdraganda kosninga skora á ríkisstjórnina og þá flokka, sem að henni standa að lýsa því skýrt yfir fyrir kosningar, fái hún umboð til áframhaldandi stjórnarsetu, að mánaðartekjur undir 350.000 kr. verði með öllu skattfrjálsar.

Höfundur er læknir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×