Skoðun

For­varnir eru lykil­at­riði í heil­brigðis­þjónustu fram­tíðar

Unnur Pétursdóttir skrifar

Ein helsta áskorun heilbrigðiskerfisins á næstu áratugum er öldrun þjóðarinnar og það fyrirsjáanlega álag sem hún mun valda í velferðarkerfinu. Mikið var fjallað um öldrunarmál frá mörgum sjónarhornum á heilbrigðisþingi í lok ágúst. Ljóst er ef kerfið á ekki að sligast undan álaginu þá eru forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir lykilatriði. Þar mun sjúkraþjálfun leika stórt hlutverk.

Önnur áskorun eru lífstílssjúkdómar og afleiðingar hreyfingarleysis á heilbrigðiskerfið. Nú þegar ber mjög á lífstílssjúkdómum hjá fjölda fólks, allt niður í börn og unglinga. og munu þeir verða vaxandi vandamál þegar þessar yngstu kynslóðir okkar eldast. Því er brýnt að hér á landi sé fjölmennur hópur sjúkraþjálfara sem bæði hefur þekkingu á sjúkdómafræðinni og þjálfunarfræðinni og getur aðstoðað fólk við að koma sínum málum í betra horf.

Í þriðja lagi er fólk að átta sig á því hversu gríðarlega stórt hlutverk sjúkraþjálfun gegnir í krabbabeinsmeðferð og ekki síður eftir meðferð. Hér áður fyrr átti fólk bara að vera þakklátt fyrir að ná bata. Vaxandi vitund er um nauðsyn endurhæfingar hjá þessum hópi fólks. Sjúkraþjálfarar fá nú til sín fólk á öllum aldri sem þarf að ná fyrri þrótti, þreki og lífsgæðum og þarna er þörfin að springa út.

Endurhæfing eftir Covid-19

Nýjasti vinkillinn hjá sjúkraþjálfurum er endurhæfing eftir Covid-19. Íslenskir sjúkraþjálfarar fylgjast vel með niðurstöðum allra rannsókna sem eru að koma fram. Þar hefur komið í ljós að aðstæður fólks sem hefur fengið Covid eru sérstakar að því leyti að þar kemur inn óvæntur síþreytuþáttur. Þetta þarf að hafa ofarlega í huga í endurhæfingu þessa hóps. Það fylgja þessu sérstök langvarandi einkenni sem eru ólík þeim sem eru til dæmis vegna lífstílssjúkdóma eða eftir krabbameinsmeðferð.

Alþjóðlegur dagur sjúkraþjálfunar 8. september

Af þessu sökum er alþjóðlegur dagur sjúkraþjálfunar, sem haldinn er hátíðlegur í dag, 8. september, tileinkaður endurhæfingu í kjölfar Covid-19. Það er vel við hæfi, enda hefur ekkert haft eins gífurleg áhrif á heilbrigðiskerfi alls heimsins á síðari tímum. Heilbrigðisstarfsfólk um allan heim hefur unnið þrekvirki við að annast þá sem veikst hafa og rétt er að benda á að þar hafa sjúkraþjálfarar, sem hafa sérhæft sig í lungnasjúkraþjálfun, unnið markvert starf á gjörgæsludeildum um allan heim, þ.á.m. hér á Landspítalanum. Nú er hins vegar komið að endurhæfingu margra þeirra og það verður eflaust margra ára verkefni allra endurhæfingarstétta.

Tækifæri sem mega ekki glatast

Margsannað er að sjúkraþjálfun, sem er tiltölulega ódýrt úrræði, seinkar verulega þörf eldra fólks og fatlaðra fyrir umfangsmeiri og miklu dýrari þjónustu. Sjúkraþjálfun hefur gríðarlegt forvarnargildi og þó svo að stór hópur eldri borgara og langveikra geti nýtt sér líkamsrækt sem stendur öllum til boða, þá er mikilvægt að fólk fái notið heilsueflingar sjúkraþjálfara, sem með þekkingu á sjúkdómum og/eða einkennum viðkomandi geta samþætt heilsueflingu og heilsufarsástand viðkomandi.

Eitt stærsta tækifæri framtíðar er fjarheilbrigðisþjónusta. Efling fjarsjúkraþjálfunar er nauðsyn. Það er ljóst að hvorki verður nægur mannafli né fjármunir í framtíðinni til að sinna öllum í beinni, staðbundinni þjónustu í framtíðinni og því er brýnt að þessi þáttur þjónustunnar verði stórefldur.

Það er spennandi þróun í sambandi við þennan vaxandi hóp aldraðra að eftir því sem árin líða verður þetta fólk sífellt leiknara í tæknilausnum. Lykillinn að aukinni endurhæfingarþjónustu við eldri borgara liggur í því að færa þjónustu eins og fræðslu, leiðbeiningar og eftirfylgni að einhverju leiti í fjarþjónustu. Í þessum efnum felst stórt tækifæri sem má ekki glatast

Samningslaust við sjúkraþjálfara

Rétt er í lokin að benda á að ekki hefur verið samningur í gildi við sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara síðan í janúar 2020. Brýnt er að tryggja fjármagn sem gerir Sjúkratryggingum Íslands kleyft að gera ásættanlega samninga við sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara um þjónustu þeirra. Ljóst er að þörfin á þjónustu sjúkraþjálfara mun aukast á næstu árum og áratugum og því er nauðsynlegt að gera ráð fyrir aukinni þörf á sjúkraþjálfun á fjárlögum. Hver króna sem sett er í endurhæfingu skilar sér til baka í auknum lífsgæðum og þjóðhagslegum verðmætum.

Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×