Skoðun

Á heimavist alla ævi?

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir skrifar

Mikill fjöldi fatlaðs fólks á Íslandi býr á herbergja sambýlum, nærri 300 manns. Þetta er fatlað fólk sem býr í herbergjum minni en 28 fermetrum og deilir annarri aðstöðu með öðru fólki. Stundum gengur sú sambúð vel en stundum er það fólk sem það þekkir lítið, á ekki í góðum samskiptum við eða fílar bara hreinlega ekki. Myndir þú sætta þig við slíkt?

Þetta fyrirkomulag þekkjum við einna helst frá heimavistum framhaldsskólanna, sem vel er hægt að láta sér lynda og njóta í tímabundnu ástandi sem ung manneskja, en er óviðunandi alla ævi. Margt fatlað fólk býr við þennan veruleika og velur ekki með hverjum það býr, hvernig vistarverur þeirra líta út, hvar það býr og hefur ekki val um marga af þeim þáttum sem við flest teljum nauðsynlega til frelsis og lífsánægju. Það er ljóst að fullorðinn einstaklingur sem býr á herbergjasambýli hefur takmörkuð tækifæri til þess að njóta fjölskyldulífs, sinna áhugamálum sínum og lifa sínu einkalífi sem þó er réttur varinn í stjórnarskrá og fjölda mannréttindasáttmála sem Ísland á aðild að.

Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir stendur um búsetumál fatlaðs fólks að:

  • það eigi rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir
  • það eigi rétt á félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðli að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu.
  • það eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra.
  • það megi ekki binda þjónustuna því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi.

Og síðast en ekki síst að fötluðu fólki sem nú býr á stofnunum eða herbergja sambýlum skulu bjóðast aðrir búsetukostir. En engin ákvæði eru um hvenær aflagning herbergjasambýla og stofnana fyrir fatlað fólk á að vera yfirstaðin og því er staðan enn sú að margt fatlað fólk býr við þessar aðstæður.

Með því að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi er varða búsetufrelsi, sem fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og tryggja fötluðu fólki húsnæði við hæfi, eru íslensk stjórnvöld ekki aðeins að standa við skuldbindingar sínar heldur að tryggja fötluðu fólki þá lágmarks reisn og virðingu sem það á skilið.

Ráðast þarf í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir fatlað fólk,bæði sem býr nú á herbergja sambýlum og stofnunum en einnig fyrir þann fjölda fatlaðs fólks sem enn er fastur í foreldrahúsum, fram á fertugsaldur. Þar bera foreldrarnir jafnan þunga umönnunarbyrði vegna þess að fullorðin börn þeirra komast ekki að heiman og fá ekki aðstoð. Enginn ætti að þurfa að búa tilneyddur hjá foreldrum sínum langt fram á fullorðins ár.

Húsnæði er mannréttindi!

Höfundur er baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks og listfræðingur sem skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×