Skoðun

Þegar ég varð stór rót­tækur femín­isti

Katla Hólm Þórhildardóttir skrifar

Ég var enn í grunnskóla þegar ég fór að tala um sjálfa mig sem femínista og reifst við stráka um að ég gæti alveg jafn mikið og þeir. Ég var orðin fullorðin þegar Hildur Lilliendahl reif niður alla veggi og opinberaði hið víðtæka kvenhatur sem við höfum búið við allt of lengi. Ég fylltist eldmóði og baráttuvilja og varð róttæk.

Ég var byrjuð í háskóla þegar ég þorði loksins að byrja taka þátt í pólitík, þar sem ég hélt ég hefði ekkert erindi komandi frá fátækri verkamannafjölskyldu, með erfið ár að baki og þótti ekki fínn pappír í bókum rótfastra stjórnmálaflokka. Ég horfði til kvenna í pólitík og dáðist að þeim fyrir hugrekkið og þorið.

Birgitta Jónsdóttir fremst í flokki, róttækur aktívisti. Katrín Júlíusdóttir, sem aldrei lét gaslýsa sig í pontu alþingis. Ásta Guðrún Helgadóttir, sem tók stórkostlegri áskorun og lét vaða. Jóhanna Sigurðardóttir, ein mesta baráttumanneskja fyrir félagslegum umbótum sem Ísland hefur átt. Katrín Jakobsdóttir, ung, skörugleg og mjög viðkunnaleg á sama tíma. Þessar konur og margar fleiri voru mínar fyrirmyndir.

Ég hef síðan þá kynnst fjöldanum af konum, kynsegin og körlum sem berjast fyrir jafnrétti hver á sinn máta. Þau hafa opnað augu mín fyrir hvað raunverulegur róttækur femínisti er. Hvernig við femínistar þurfum að vera í stöðugri þróun til að missa ekki sjónar á markmiðinu, hvernig við þurfum að hlusta, lyfta konum í viðkvæmum aðstæðum upp og halda kjafti annað slagið því við íslenskar konur erum upp til hópa hvítar og vel settar. Við erum í forréttindastöðu að berjast fyrir jafnrétti okkar en stundum gjarnar á að byggja aftur upp veggina sem voru brotnir niður fyrir okkur fyrir rétt um tíu árum síðan.

Ég varð stór fyrir fjórum árum síðan þegar ein af mínum fyrirmyndum horfði framhjá ótrúlegri misbeitingu valds gegn konum í viðkvæmum aðstæðum og tók sér sæti í ríkisstjórn sem byggð var á grunni gerendameðvirkni og augu mín opnuðust. Ég ætla ekki að taka þátt í að endurbyggja veggina sem fela mismunun, kvenhatur, óréttlæti gagnvart þolendum og þöggun á jaðarsettum hópum. Ég varð róttækari því ég sá að ég get ekki treyst á fyrirmyndir mínar til að vera róttækar fyrir mig.

Höfundur er kosningastýra Pírata í Norðausturkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×