Viðskipti innlent

Hið opinbera eigi „alls ekki“ að leiða launaþróun

Kristín Ólafsdóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Vísir/vilhelm

Fjármálaráðherra segir opinbera markaðinn alls ekki eiga að vera leiðandi í launþróun í landinu. Miklar launahækkanir hjá hinu opinbera á árinu hafi þó verið viðbúnar.

Fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans að launavísitalan hafi hækkað um sjö komma átta prósent síðustu tólf mánuði, sem sé örlítið hærri árstaktur en verið hefur undanfarna mánuði. Þá lítur Hagsjáin sérstaklega á launabreytingar hjá helstu hópum vinnumarkaðarins frá maí 2020 fram til maí 2021. 

Á þessu tímabili hafi laun á almenna markaðnum hækkað um fimm komma átta prósent og um tólf komma fjögur prósent á þeim opinbera, tíu komma sjö prósent hjá ríkinu og fjórtán komma fimm prósent hjá sveitarfélögunum. Opinberi markaðurinn hafi þannig verið leiðandi í launabreytingum á tímabilinu, þrátt fyrir að staða kjarasamningagerðar hafi jafnast, segir í Hagsjánni. Munurinn milli markaða virðist vera að aukast.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að skoða þurfi tölurnar betur.

„Það á alls ekki að vera þannig að hið opinbera leiði launaþróun. Það þarf örugglega að rýna betur í þessar tölur og skoða mun milli markaða,“ segir Bjarni.

Hann segir „öldu launahækkana“ hjá hinu opinbera hafa verið viðbúna eftir að lægstu taxtar voru hækkaðir hjá sveitarfélögum.

„Það er mikill fjöldi sem var á lágum launum á sveitastjórnarstiginu sem fékk töluvert mikla hækkun en það þarf bara að rýna þessar tölur betur. Vinnumarkaðsfyrirkomulagið á Íslandi hlýtur ávallt að þurfa að ganga út á það að svigrúm til launahækkana sé metið á almenna markaðnum, sem sé leiðandi í launamyndun í landinu, og svo fylgi opinberi geirinn á eftir. Það er eðlileg þróun.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×