Körfubolti

Einhentur körfuboltamaður fékk boð um að spila í bandaríska háskólaboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hansel Emmanuel treður hér boltanum í körfuna.
Hansel Emmanuel treður hér boltanum í körfuna. Skjámynd/Youtube/SLAM

Þegar viljinn og metnaðurinn er fyrir hendi er allt hægt. Dóminískur körfuboltastrákur lætur ekkert stoppa sig og fagnaði stórum tímamótum á dögunum.

Hansel Emmanuel Donato Domínguez hefur vakið mikla athygli á körfuboltavellinum í High school (menntaskóla) en hafði ekki fengið nein tilboð um að spila í bandaríska háskólakörfuboltanum. Sumum fannst það ekkert skrýtið.

Ástæðan fyrir því er að Hansel hefur bara eina hendi sem flestum þykir ekki vænlegt til árangurs þegar þú ert að spila íþrótta þar sem þú notar báðar hendurnar.

Þrátt fyrir að vera einhentur þá er Hansel löngu búinn að sýna það og sanna að hann er frábær körfuboltaleikmaður sem fann leið til að spila leikinn þrátt fyrir fötlun sína.

„Ég var blessaður með mínu fyrsta tilboði frá 1. deildarskóla þegar ég fékk boð frá Tennessee State university. Takk fyrir að trúa á mína hæfileika,“ skrifaði Hansel Enmanuel á Instagram síðu sína. Hann er vinsæll enda meir meira en 628 þúsund fylgjendur á Instagram.

Hansel er núna sautján ára gamall en hann missti vinstri hendina í slysi þegar hann var sex ára gamall. Veggur féll þá á Hansel og hann var fastur í meira en tvo tíma. Á endanum var ekkert annað í stöðunni en að fjarlægja vinstri hendina hans.

Faðir hans er fyrrum atvinnumaður í körfubolta og hann var sá sem bjargaði stráknum úr prísundinni. Þá bjó fjölskyldan í Dóminíska lýðveldinu.

„Líf mitt hrundi þegar Hansel lenti í slysinu. Hann var með mér og mér fannst allt búið þegar þeir þurftu að taka af honum handlegginn. Guð greip hins vegar í okkur og kom okkur á þessa slóð,“ sagði faðir hans við Orlando Sentinel.

„Ég vona að allir horfi ekki á mig sem sérstakan strák sem er með þessa fötlun. Ég vona að þau sjái mig sem frábæran leikmann sem geti komist langt. Að þau sjái að ég sé góður leikmaður,“ sagði Hansel við sama blað.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×