Skoðun

Katrín Jakobs­dóttir skuldar þér ekki af­sökunar­beiðni

Þórarinn Hjartarson skrifar

Nýjasta barefli stjórnarandstöðunnar er að krefja Katrínu Jakobsdóttur um afsökunarbeiðni fyrir að klúðra aðgerðum vegna Covid-19. Hingað til hefur helsta umkvörtunarefni stjórnarandstöðunnar verið að frelsissviptingarnar vegna veirunnar hafi ekki gengið lengra en raun ber vitni. Þau hafa fullyrt að það sem vel hefur gengið sé sóttvarnarlækni að þakka en ekki stjórnvöldum. Nú þegar bakslag á sér stað í baráttunni krefjast þau hins vegar þess að stjórnvöld að biðji þjóðina afsökunar. Áður vildi stjórnarandstaðan ekki veita ríkisstjórninni hrós fyrir það að vel hafi gengi í Covid, en nú þegar að illa gengur krefjast þau þess að ríkisstjórnin beri ábyrgð. Þessi þversögn og tvískinnungur er að sjálfsögðu flestum augljós. Þetta er, hins vegar, því miður vísbending um það hvað koma skal í komandi kosningabaráttu.

Svandís Svavarsdóttir sagði nýverið að hún vonaðist til að baráttan við veiruna yrði ekki gerð að pólitísku bitbeini, líkt og hún kallaði það. Það fráleit hugmynd. Fyrirbæri sem hefur haft áhrif á allt okkar líf, með engum fyrirsjáanlegum endi, mun að sjálfsögðu verða pólitískt bitbein. En afstaða stjórnmálaflokkanna á ekki að vísa til þess hvernig stjórnvöld hafa hagað málum hingað til, heldur til þess hvernig þeir sjái fyrir sér að haga hlutunum í framhaldi, verði þeir kosnir.

Ásökunum stjórnarandstöðunnar má líkja við það að í kjölfar EM 2016 hefðu Íslendingar krafið landsliðið um afsökunarbeiðni fyrir það að hafa tapað 5-2 gegn Frökkum. Stjórnarandstöðunni væri nær að sannfæra kjósendur um eigið ágæti, frekar en að fjölyrða um það hvað aðrir eru ómögulegir.

Katrín skuldar þér ekki afsökunarbeiðni.

Þórólfur skuldar þér ekki afsökunarbeiðni.

Enginn skuldar þér afsökunarbeiðni.

Höfundur er þáttastjórnandi í hlaðvarpinu Ein Pæling.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.