Körfubolti

Luka Doncic með stig á mínútu í stórsigri á heimamönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic skorar eina af körfum sínum í leiknum í nótt.
Luka Doncic skorar eina af körfum sínum í leiknum í nótt. AP/Eric Gay

Luka Doncic og félagar í slóvenska körfuboltalandsliðinu áttu ekki í miklum erfiðleikum með að landa sínum öðrum sigri á Ólympíuleikunum í Tókýó í nótt.

Slóvenar unnu þá 35 stiga sigur á Japan, 116-81, en þeir höfðu unnið Argentínumenn í fyrsta leik sínum. Þetta eru fyrstu Ólympíuleikar Slóvena síðan þeir fengu sjálfstæði frá Júgóslavíu.

Sigur Slóvena var mjög öruggur en þeir unnu alla fjóra leikhlutana og gátu leyft sér að hvíla leikmenn fyrir frekari átök á leikunum.

Luka Doncic skoraði 25 stig á rúmum 25 mínútum í leiknum og var að auki með 7 fráköst og 7 stoðsendingar. Doncic hitti reyndar aðeins úr 2 af 8 þriggja stiga skotum sínum en nýtti 6 af 7 skotum inn fyrir línuna.

Doncic er núna búinn að spila 58 mínútur á leikunum og hefur skorað á þeim 73 stig auk þess að taka 18 fráköst og gefa 12 stoðsendingar.

Zoran Dragic var líka næstum því með stig á mínútu en hann skoraði 24 stig á rúmum 25 mínútum.

Rui Hachimura, sem spilar með Washington Wizards í NBA-deildinni, var langstigahæstur í japanska liðinu með 34 stig en hann skoraði tvöfalt meira en næsti maður.

Lokaleikur Spánverja í riðlakeppni leikanna er á móti Spánverjum. Japanir stóðu mun meira í spænska liðinu en því slóvenska.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.