Handbolti

Öruggt hjá norska liðinu í fyrsta leik

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þórir Hergeirsson vonast eftir öðru Ólympíugulli sínu sem þjálfari norska liðsins.
Þórir Hergeirsson vonast eftir öðru Ólympíugulli sínu sem þjálfari norska liðsins. Getty/Oliver Hardt

Norska kvennalandsliðið í handbolta, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, vann öruggan 39-27 sigur á Suður-Kóreu í fyrsta leik sínum á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Norska liðið var með öll völd vellinum frá upphafi leiks í morgun og leiddi með átta marka mun í hálfleik, 18-10. Liðið bætti 21 marki til viðbótar í síðari hálfleik og niðurstaðan tólf marka sigur, 39-27.

Línumaðurinn Kari Brattset Dale var markahæst í norska liðinu með ellefu mörk en Veronica Kristiansen skoraði sjö. Þá átti Silje Solberg góðan dag í markinu er hún varði 18 skot, 43% þeirra sem komu á markið.

Þórir hefur verið hluti af teyminu kringum norska landsliðið frá 2001 en verið aðalþjálfari þess frá 2009. Hann stýrði liðinu til gullverðlauna á ÓL í Lundúnum 2012 en hlaut brons í Ríó 2016.

Eftir sigur dagsins er Noregur á toppi A-riðils keppninnar vegna hagstæðustu markatölunnar. Ekki langt á eftir eru Holland og Svartfjallaland sem einnig unnu örugga sigra.

Lois Abbingh var líkt og oft áður markahæst í hollenska landsliðinu, með sjö mörk, í 32-21 sigri á heimakonum í Japan en Holland hafði, líkt og Noregur, leitt 18-10 í hléi.

Svartfjallaland vann þá einnig ellefu marka sigur, 33-22, á Angóla. Hægri skyttan Jovanka Radičević skoraði tólf mörk fyrir þeir svartfellsku.

Mesta spennan í B-riðlinum

Spennan var meiri í eina leik B-riðils sem er yfirstaðinn í Tókýó í dag. Ríkjandi Ólympíumeistarar Rússlands gerðu þar jafntefli við Ameríkumeistara Brasilíu í hörkuleik.

Rússland leiddi með tveimur mörkum í hálfleik og náði mest þriggja marka forystu í síðari hálfleik. En Brasilía sneri taflinu við í kjölfarið þegar liðið komst í 22-20. Þær rússnesku skoruðu þá þrjú mörk í röð til að komast yfir, 23-22, og svo aftur 24-23, en þeim brasilísku tókst að næla sér í stig með jöfnunarmarki. Úrslitin 24-24.

Tveir aðrir leikir eru á dagskrá í B-riðlinum í dag. Spánn mætir Svíþjóð klukkan 10:30 og Ungverjarland mætir Frakklandi klukkan 12:30.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.