Formúla 1

Hamilton beittur kyn­þátta­níði í kjöl­far sigursins á Sil­ver­stone

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hamilton fagnar að lokinni keppni á Silverstone um helgina. Hann hefur alls fagnað átta sigrum þar á ferlinum.
Hamilton fagnar að lokinni keppni á Silverstone um helgina. Hann hefur alls fagnað átta sigrum þar á ferlinum. Bryn Lennon/Getty Images

Heimsmeistarinn Lewis Hamilton vann dramatískan sigur á Silverstone-brautinni í Bretlandi í Formúlu 1 sem fram fór í gær. Var Hamilton beittur kynþáttaníði á samfélagsmiðlum eftir sigurinn.

Kappakstur gærdagsins var dramatískur svo vægt sé til orða tekið. Alls mættu 140 þúsund manns á Silverstone og sáu Hamilton lenda í árekstri við Max Verstappen strax á fyrsta hring. 

Hamilton fékk í kjölfarið 10 sekúndna refsingu en tókst samt að koma til baka og skjóta Charles Leclerc ref fyrir rass í lokin og landa sigrinum.

Hamilton keppir fyrir Mercedes og eftir að liðið setti inn færslu á Instagram til að óska ökumanni sínum til hamingju rigndi inn miður fallegum skilaboðum. Sky Sports News greinir frá og segir í frétt þeirra að Facebook – móðurfélag Instagram – sé með málið til rannsóknar.

Formúla 1, FIA og Mercedes fordæma alla slíka hegðun og hafa gefið út tilkynningu þess efnis. Þar segir að ekkert pláss sé innan Formúlunnar fyrir einstaklinga sem beiti kynþáttaníði og að því þurfi að útrýma.

Hamilton – sem er sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 – hefur talað gegn kynþáttaníði allan sinn feril. Nú síðast í kjölfar níðsins sem Bukayo Saka, Marcus Rashford og Jadon Sancho urðu fyrir eftir að England tapaði gegn Ítalíu í úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu.

Hann mun halda því áfram sem og baráttunni um áttunda heimsmeistaratitilinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×