Bílar

70 prósent hleðslustöðva í Evrópusambandinu eru í þremur löndum

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Hleðslustöð Tesla við Staðarskála.
Hleðslustöð Tesla við Staðarskála.

Flestar hleðslustöðvar fyrir rafbíla eru innan Hollands, Frakklands og Þýskalands, eða um 70%. Þrátt fyrir að mikil áhersla hafi verið lögð á að minnka umferð brunahreyfilsbíla, sérstaklega í borgum, virðist samkvæmt nýrri skýrslu um hleðslustöðvar, vanta talsvert upp á innviði.

Sumstaðar í Evrópu hafa plön um að banna dísel og bensín bíla í borgum eða jafnvel alveg verið gerð opinber. Mikið regluverk hefur verið samið en svo virðist sem innviðauppbygging sé víða langt á eftir.

Rannsókn sem Samband evrópska bílaframleiðenda (ACEA) lét gera þá er uppbygging hleðslustöðva afar mislangt komin. Skýrslan greinir frá því að 70% allra stöðva innan ESB séu í Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi. Holland státar af 66.665 stöðvum og Frakkland 45.751 á meðan stöðvarnar eru 44.538 í Þýskalandi. Ítalía er svo í fjórða sæti, talsvert á eftir með 13.073 stöðvar og Svíþjóð í fimmta sæti með 10.370 stöðvar. Holland er 8% af flatarmáli ESB en er með næstum 30% allra hleðslustöðva sem finnast innan sambandsins.

Dreifing hleðslustöðva innan ESB.

Á hinum endanum ná Kýpur, Malta, Litháen, Búlgaría, Grikkland og Rúmenía ekki 500 stöðvum hvert.

Sala rafbíla í Evrópu jókst um 89% árið 2020 en ójafnvægi í innviðauppbyggingu gæti hindrað frekari ásókn rafbíla. ACEA gerir ráð fyrir að það þurfi sex milljón hleðslustöðvar til að ná markmiði um helmingun koltvísýringslosunar fyrir árið 2030. Markmið sem ESB hefur þegar sett sér.

Skýrslan dregur upp dökka mynd og vísar til mismunandi efnahagsstöðu landa innan Sambandsins. Þá segir skýrslan að ef ESB vill auka aðsókn í rafbíla á þurfi Sambandið að styðja við fátækari ríki Sambandsins til uppbyggingu innviða og uppsetningu hleðslustöðva. Það er eftir allt erfitt að banna dísel og bensín bíla ef hvergi er hægt að hlaða rafbíla.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×