Norris var á meðal áhorfenda á leik Englands og Ítalíu og sá Ítali verða Evrópumeistara eftir 3-2 sigur í vítaspyrnukeppni. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var jöfn, 1-1.
Þegar Norris var á leið af vellinum eftir leikinn var hann rændur af tveimur mönnum. Annar þeirra hélt honum meðan hinn reif af honum Richard Mille úr að verðmæti tæplega sjö milljóna króna.
Samkvæmt talsmanni McLaren, liðsins sem Norris ekur fyrir í Formúlu 1, var ökuþórnum skiljanlega brugðið eftir atvikið. Hann slapp þó ómeiddur.
Mikið gekk á á sunnudaginn og margir stuðningsmenn Englands létu ófriðlega. Fjöldi stuðningsmanna ruddist inn á Wembley þrátt fyrir að vera ekki með miða og öryggisgæslu á úrslitaleiknum var ábótavant.
Hinn 21 árs Norris er á sínu þriðja tímabili í Formúlu 1. Hann er í 4. sæti í keppni ökuþóra sem stendur. Norris hefur þrisvar sinnum komist á verðlaunapall á tímabilinu.