Umfjöllun og viðtöl: Þór - Keflavík 81-66 | Þórsarar Íslandsmeistarar í fyrsta sinn

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Allt ætlaði um koll að keyra í kvöld.
Allt ætlaði um koll að keyra í kvöld. vísir/hulda margrét

Þór Þorlákshöfn varð Íslandmeistari í körfubolta í fyrsta sinn með sigri gegn Keflavík en liðin mættust í fjórða leik úrslitaeinvígisins í kvöld.

Það var gríðarleg stemmning í Þorlákshöfn þegar fréttaritara Vísi bar að garði þegar um það bil klukkustund var þangað til leikurinn myndi hefjast. Það þurfti ekki að finna íþróttahúsið heldur var hægt að einfaldlega ganga á hljóðið sem stuðningsmenn Þórs, Græni Drekinn var að gefa frá sér. Alls kyns stuðningsmannasöngvar og klöpp ómuðu um bæinn.

Fyrir leikinn var ljóst hvað var undir. Þór var með tvo sigra gegn einum sigri Keflvíkinga í einvígi liðanna um Íslandsmeistaratitilinn og gat með sigri tryggt sér bikarinn. Á heimavelli. Á föstudagskvöldi. Það er skemmst frá því að segja að eftir jafnan og spennandi leik höfðu heimamenn sigur 81-66 í leik sem var jafnari en lokastaðan gefur til kynna.

Keflavík byrjaði leikinn betur en hvorugt liðið var þó í neinum takti sóknarlega og augljóst hverjum manni að taugarnar voru þandar til hins ítrasta. Keflavík komst í 5-10 og svo 12-22 og voru að gera heimamönnum lífið leitt. Sérstaklega var Domynikas Milka sterkur á þessum upphafskafla. Þór gerði þó það sem þeir hafa gert í allan vetur. Þeir spiluðu sinn leik, tóku sín skot og komu til baka og jöfnuðu í 27-27.

Síðan var jafnt á öllum tölum í öðrum leikhluta. Davíð Arnar var flottur í liði þórs í allt kvöld og hélt Deane Williams leikmanni Keflavíkur vel niðri á varnarhelmingi vallarins, ásamt því að setja stór skot. Mikil harka var í leiknum og reyndu dómarar leiksins að hafa hemil á mönnum með tæknivillum á vel völdum stöðum. Ein slík sendi Halldór Garðar Hermannsson í sturtu og voru því Þórsarar orðnir ansi fáliðaðir. Þeir höfðu þó forystu þegar hálfleiksflautan gall. 43-40.

Þór hóf síðari hálfleikinn á troðslu frá Adomas Drungilas sem gaf í rauninni tóninn fyrir hálfleikinn. Drungilas var algerlega frábær í síðari hálfleik bæði í vörn og sókn og var að öðrum ólöstuðum maður leiksins og seríunnar.

Svo var jafnt á öllum tölum þangað til að Þór sigldi framúr í fjórða leikhluta og örvæntingafullar tilraunir Keflavíkur til þess að jafna tókust illa enda var varnarleikur heimamanna ofboðslega góður. Keflavík skoraði einungis 26 stig í síðari hálfleik.

Leikurinn svo kláraðist endanlega þegar að Drungilas setti niður þrjár þriggja stiga körfur á 2gja mínútna kafla um miðbik fjórða leikhluta. Þór íslandsmeistari 2021!

Hvers vegna vann Þór?

Varnarleikur liðsins var frábær á köflum. En það var líka á sóknarhelmingnum sem Keflavík réð illa við þá. Davíð Arnar og Drungilas settu svakaleg skot og Larry Thomas og Styrmir Snær Þrastarson hjálpuðust að við að sigla leiknum heim þegar þess þurfti.

Keflvíkingar frusu líka. Þeim gekk afskaplega illa að koma CJ Burks inn í leikinn og eiginlega þrjóskuðust við það þangað til það var orðið of seint.

Maður leiksins

Maður leiksins og verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar var Adoms Drungilas. Hann skoraði 24 stig og tók 11 fráköst í þessum leik. Eins og það væri ekki nóg þá var hann líka eini maðurinn í allan vetur sem gat ráðið við Domynikas Milka einn á einn. Það taldi heldur betur í lokin.

Davíð Arnar Ágústsson átti líka frábæran leik með 15 stig.

Græni Drekinn

Það er eiginlega ekki hægt að loka þessari umfjöllun án þess að minnast á hlut Græna Drekans sem fór algerlega á kostum í stúkunni frá upphafi til enda þessarar seríu. Hávaðinn í Icelandic Glacial höllinni var á tímabili ærandi. Frábærlega gert hjá einni bestu stuðningsmannasveit landsins.

Lárus: Fyrir klúbbinn og Jóhönnu

Lárus Jónsson á fleygiferð.vísir/hulda margrét

Lárus Jónsson þjálfari Þórsara var að vonum sigurreifur eftir að hans menn tryggðu sér íslandsmeistaratitilinn.

„ Fyrst vil ég bara segja takk kærlega fyrir frábæra seríu. Þakka bæði keflvíkingum og áhorfendum fyrir frábæra stemmningu.“

Lárus hefur ekki verið að þjálfa stærstu liðin hingað til. En bjó til mikla stemmningu í þessu Þórsliði.

„Þetta er ekkert fyrir mig persónulega. Þetta er fyrir klúbbinn og Jóhönnu. Þetta er miklu stærra fyrir þau en mig. Minn er ekki bara heiðurinn að hafa fengið að koma að þessu verkefni, Ég fékk að taka við góðu búi, frábærum klúbb.“

Það voru ákveðin afföll úr liði Þórsara í leiknum en Halldóri Garðari var meðal annars vikið af velli.

„Dóri fór útaf, Callum gat ekki spilað en við vorum eiginlega bara eftir 6. En þetta er síðasti leikuinn á tímabilinu og við gáfum allt sem við áttum.“

Styrmir Snær: Það eru bókstaflega allir hérna

Styrmir kyssir bikarinn stoltur í kvöld.vísir/hulda margrét

Styrmir Snær Þrastarson vissi eiginlega ekki alveg hvernig hann átti að haga sér eftir að Þór tryggði sér titilinn

„Ég hef aldrei unnið neitt áður. Ekki í yngri flokkum og ekki í meistaraflokki. Þetta er ótrúlegt.“

Þorlákshöfn er ekki stórt félag á landsvísu en Styrmir sagði það gera þetta enn sætara.

„Ég get eiginlega ekki lýst þessu. Þetta er svo stórt fyrir lítið bæjarfélag. Það eru bókstaflega allir í stúkunni.“

Styrmir var stífdekkaður í síðari hálfleik en náði samt að setja mark sitt á leikinn. Aðspurður sagði hann málið vera einfalt.

„Ég skeit í Keflavík í síðasta leik, svo fór ég og hugsaði minn gang. Svo átti ég lélegan fyrri hálfleik en svo kom þetta bara!“


Tengdar fréttir

Adomas Drungilas valinn verðmætasti leikmaðurinn

Adomas Drungilas, leikmaður Þórs frá Þorlákshöfn, var valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar í Domino's deild karla. Hann átti stórleik þegar Þórsarar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira