Körfubolti

NBA dagsins: Var ekki í deildinni fyrir ári en átti sinn besta leik á ferlinum í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cameron Payne skorar tvö af 29 stigum sínum gegn Los Angeles Clippers í nótt.
Cameron Payne skorar tvö af 29 stigum sínum gegn Los Angeles Clippers í nótt. getty/Christian Petersen

Phoenix Suns er komið í 2-0 í einvíginu gegn Los Angeles Clippers í úrslitum Vesturdeildar NBA eftir dramatískan sigur, 104-103, í leik liðanna í nótt.

Deandre Ayton skoraði sigurkörfu Phoenix þegar hann tróð boltanum viðstöðulaust ofan í eftir innkast.

Ayton skoraði 24 stig og tók fjórtán fráköst og Devin Booker var með tuttugu stig. Stigahæsti leikmaður Phoenix í leiknum var hins vegar Cameron Payne.

Hann hefur fengið stórt hlutverk í fjarveru í Chris Paul og átti sennilega sinn besta leik á ferlinum í nótt. Payne skoraði 29 stig, sem er persónulegt met, gaf níu stoðsendingar og tapaði boltanum aldrei. Hann lék einnig vel í fyrsta leiknum gegn Clippers og var þá með ellefu stig og níu stoðsendingar.

Klippa: NBA dagsins 23. júní

Ekki er langt síðan hinn 26 ára Payne var ekki í NBA. Hann spilaði í Kína og í G-deildinni áður en Phoenix samdi við hann fyrir leikina í búbblunni í Flórída þar sem síðasta tímabil var klárað. Payne stóð sig vel í búbblunni og hefur skilað sínu á þessu tímabili.

Í deildarkeppninni var Payne með 8,4 stig og 3,6 stoðsendingar að meðaltali í leik og 44 prósent þriggja stiga nýtingu. Í úrslitakeppninni er hann með 11,8 stig og 3,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Oklahoma City Thunder valdi Payne í nýliðavalinu 2015 en hann náði ekki að festa sig í sessi hjá liðinu. Hann fór svo til Chicago Bulls og Cleveland Cavaliers áður en hann datt út úr deildinni. Núna er hann hins vegar búinn að finna sinn samastað hjá Phoenix sem er aðeins tveimur sigrum frá því að komast í úrslit NBA í fyrsta sinn í 28 ár.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá brot úr leik Phoenix og Clippers í nótt auk viðtals við Ayton.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×