Skoðun

Jú, auðvitað á að niðurgreiða sálfræðiþjónustu

Bjarki Eiríksson skrifar

Þann 19. júní síðastliðinn skrifar Þórarinn Hjartarson grein sem ber nafnið Nei, það á ekki að niðurgreiða sálfræðiþjónustu þar sem hann fullyrðir m.a. að stjórnmálamenn nýti sér vanlíðan ungs fólks með ,,fjarstæðukenndum hugmyndum um aðgengi að sálfræðiþjónustu án þess að svara því hvernig standa á við loforðin.”

Hafa ber í huga við athugun þessarar fullyrðingar að í júní 2020 samþykkti Alþingi, í þverpólitískri sátt allra flokka, frumvarp Viðreisnar sem kveður á um niðurgreiðslu sálfræðikostnaðar og leiddi þar með í lög að þessi lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónusta ætti að vera niðurgreidd til jafns við aðra nauðsynlega heilbrigðisþjónustu svo að þeir sem á henni þurfa að halda eigi auðveldara að sækja sér hjálp, án þess að það höggvi skarð í heimilisbókhaldið.

Það að almenningi sé tryggt opnara aðgengi að sálfræðiþjónustu með greiðsluþátttöku hins opinbera þýðir ekki að eftirspurn eftir sálfræðiþjónustu muni stóraukast. Sömu rökum var beitt þegar til stóð að niðurgreiða kostnað við sjúkraþjálfun án þess þó að þær dómsdagsspár rættust. Hins vegar dróst nýgengi örorku vegna stoðkerfisvanda saman við það að greiða niður þessa heilbrigðisþjónustu.

Þórarinn minnist einnig á að ,,Ef sálfræðiþjónusta verður niðurgreidd að fullu til allra þeirra sem sækjast eftir henni mun það leggja kerfið á hliðina. Þeir sem þurfa nauðsynlega á þjónustunni að halda myndu ekki komast að og sálræn líðan landsmanna kæmi til með að líða fyrir það.”

Það er hárrétt að sé ekki sett þak á greiðsluþátttöku gætu lögin reynst samfélaginu bjarnargreiði. Með frumvarpinu er ekki kveðið á um niðurgreiðslu að fullu eða ótakmarkað. Það eru settar ákveðnar girðingar um það. Ráðherra skal setja reglugerð sem kveður á um það hvert hámark yrði og hve hátt hlutfall yrði niðurgreitt. Það er alveg á tæru.

Annars leikur mér forvitni á að vita hverjir það eru sem Þórarni finnst þurfa nauðsynlega á sálfræðiþjónusu að halda. Við erum öll sammála um að þegar við veikjumst eða finnum fyrir verkjum lengur en okkur þykir eðlilegt þá leitum við til læknis, og fáum við tannpínu hittum við tannlækni. Þegar við finnum ekki fyrir verkjum, veikindum eða tannpínu þá erum við ekki að hitta sérfræðinga að óþörfu og hvers vegna ætti það að vera öðruvísi þegar kemur að sálfræðiþjónustu?

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við þurfum að gefa andlegri líðan okkar og heilsu meiri gaum. Ég fer með bílinn minn reglulega í olíuskipti og yfirferð til að koma í veg fyrir að ákveðnir hlutir geti skemmt hann eða orðið til þess að bíllinn minn bili, ég fer ekki bara með hann á verkstæði eingöngu þegar vélin er úrbrædd.

Ég reyni að mæta í ræktina reglulega til að halda skrokknum mínum heilbrigðum til að fyrirbyggja að þegar hann bregðist mér eftir því sem árunum fjölgar.

Forvirkar aðgerðir virka og geta sparað ríkinu gríðarlega fjármuni til lengri tíma. Meirihluti örorkubóta eru greiddar út vegna andlegrar örorku. Það er raunveruleikinn og með auknu aðgengi að samtalsmeðferðum getum við sem samfélag reynt að snúa við blaðinu og fjárfest í geðheilbrigði almennings.

Það er nefnilega ódýrara bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið allt að fyrirbyggja heilsubrest, hvort sem hann er af líkamlegum eða andlegum toga.

Höfundur skipar 9. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×