Skoðun

Sið­menntað fólk pissar ekki úti

Þórarinn Hjartarson skrifar

Fyrir ekki svo löngu þótti okkur eðlilegt að sjá drukkið fólk pissa úti. Sem betur fer er sú tíð liðin. Þessir gerendur eru nú dregnir til ábyrgðar. Við búum svo vel að siðgæðisverðir sinna því þakklausa hlutverki að vega og meta hegðun fólks. Til þeirra getum við leitað þegar fólk misstígur eða mismælir sig. Þetta fólk hefur aldrei misstígið sig og er því betur í stakk búið til þess að útskýra fyrir okkur hin hvað sé rétt og hvað sé rangt. Þau útskýra fyrir okkur hvenær megi mynda kynfæri fólks, án þeirra vitundar, og hvenær ekki. Þau geyma sannleika þess hvernig samskipti kynjanna skuli vera og því er mikilvægt að vera vel á varðbergi ef fólki verður á.

Við erum með hið fullkomna tæki í vasanum til þess að sinna þessari samfélagsskyldu. Það er mikilvægt að ná upptökum af fólki sem telur sig vera að eiga einkasamræður þar sem siðgæðisvörðunum hugnast ekki umræðuefnið. Það er mikilvægt að við náum gerendum á myndband þegar það verður uppvíst af því að kasta af sér þvagi utandyra eða við annað ófyrirgefanlegt athæfi. Enginn á að vera óhultur á þessum byltingarkenndu tímum.

Viljum við búa í samfélagi þar sem fólk sem misstígur sig fær að halda í vinnu? Hvernig losnum við við þetta mein ef við erum ekki tilbúin til þess að takast á við það af hörku? Við höfum ekki tíma í rökræður. Siðgæðisverðirnir hafa komist að niðurstöðu og hverskyns samtal því ólíklegt til árangurs. Dómstólar eru óþarfir þegar við höfum í okkar röðum fólk sem er laust við allan breyskleika. Gerendur geta ekki falið sig lengur bakvið klisjukenndar afsakanir á borð við að „öllum verði á“ og „að gera mannleg mistök.“ Okkar samfélag er ekki fullkomið en saman getum við skapað það.

Stöndum saman. Verum gott fólk. Siðmenntað samfélag skaffar slæmu fólki ekki vinnu.

Höfundur er þáttastjórnandi í hlaðvarpinu Ein pæling. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×