Skoðun

En hvað ef ég er ekki sammála?

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir skrifar

Þeir tímar sem við lifum á virðast kalla á það að skoðanir fólks þurfi allar að vera af einu meiði og helst þannig að allir geti fellt sig við þær. En hvað ef ég er ekki sammála? Heilbrigð skoðanaskipti og rökræður um málefni samfélagsins eru það sem drífur áfram breytingar og snúast um að finna bestu mögulegu niðurstöðuna hverju sinni. Ef allir væru sammála um eina ríkisskoðun á öllu - myndum við þá vera að sjá þær breytingar sem hafa átt sér stað í hinum ýmsu málefnum? Við þurfum að eiga þetta samtal og þurfum að þora að eiga þessi skoðanaskipti og rökræður, því að mínu viti er ljóst að ef allir ætla að fella sig við sömu skoðanirnar og sömu sjónarmiðin, þá kaffærum við framþróun í samfélaginu og það viljum við ekki. Við þurfum að þora að vekja athygli á öðrum hliðum umræðunnar, þora að taka rökræðuna og þora að skiptast á skoðunum um málefnin.

Held að það sjáist ágætlega á árangri núverandi ríkisstjórnar hvernig hægt er að ná fram slíkum skoðanaskiptum. Ég tel mikilvægt að við höfum ríkisstjórn sem kemur úr mismunandi áttum, með mismunandi hugsjónir og aðferðafræði á verkefnin. Með því að taka allar hliðar umræðunnar og mætast á miðri leið komumst við að niðurstöðu sem er til hagsbóta fyrir heildina. Megum ekki eingöngu horfa á verkefnin út frá sjónarhorni vagnhestsins – verum tilbúin að líta til hliðar og skoða fleiri sjónarmið. Framtíðin nefnilega ræðst á miðjunni!

Höfundur er lögfræðingur og frambjóðandi í 3. sæti í prófkjöri Framsóknar í Suðurkjördæmi. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.