Handbolti

Álaborg í úrslit eftir sigur gegn frönsku risunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar, en liði leikur til úrslita í Meistaradeildinni á morgun.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar, en liði leikur til úrslita í Meistaradeildinni á morgun. Christof Koepsel/Getty Images

Álaborg vann í dag frækinn tveggja marka sigur gegn PSG í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta. Lokatölur 35-33 og Álaborg mætir annað hvort Nantes eða Barcelona í úrslitaleiknum á morgun. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar.

Frönsku meistararnir byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins. Munurinn hélst þrjú til fjögur mörk stærstan hluta fyrri hálfleiks, en það var Álaborg sem skoraði seinasta mark hálfleiksins og minnkaði muninn í tvö mörk.

Hálfleikstölur voru því 15-13 PSG í vil og nóg eftir af handbolta.

Frakkarnir byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þann fyrri og komust fljótt í fimm marka forskot. Danirnir voru ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát og minnkuðu muninn jafnt og þétt.

Álaborg náði góðu áhlaupi og skoruðu sjö mörk gegn tveim mörkum PSG og jöfnuðu leikinn.

Liðin skiptust á að skora næstu mínútur, en Álaborg náði í fyrsta skipti tveggja marka forskoti þegar þeir breyttu stöðunni í 31-29.

Þá skiptust liðin aftur á að skora og munurinn var því eitt til tvö mörk út leikinn. Það voru Danirnir sem skoruðu seinasta mark leiksins og tryggðu sér virkilega sterkan tveggja marka sigur.

Arnór Atlason og félagar hans í Álaborg eru því komnir í undanúrslit Meistaradeildarinnar þar sem að þeir mæta annað hvort Nantes eða Barcelona, en úrslitaleikurinn fer fram klukkan 16:00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×