Körfubolti

Vestri einum sigri frá Dominos og gömlu þjálfararnir hjálpa til bak við tjöldin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmir Hallgrímsson er ungur uppalinn leikmaður hjá Vestra sem er í stóru hlutverki hjá liðinu.
Hilmir Hallgrímsson er ungur uppalinn leikmaður hjá Vestra sem er í stóru hlutverki hjá liðinu. Instagram/@vestrikarfa

Vestri er 2-1 yfir í úrslitaeinvígi 1. deildar karla í körfubolta og þarf því bara einn sigur í viðbót til að tryggja sér sæti í Domino's deildinni eftir sjö ára fjarveru.

Ísfirðingar hafa unnið tvo síðustu leiki þar á meðal tólf stiga sigur í fyrri leik liðanna á Jakanum á Ísafirði, 89-77.

Vestramenn eru á heimavelli í kvöld og því í dauðafæri á að tryggja Vestfjörðum aftur lið í efstu deild. Leikurinn hefst klukkan 20.00 og er búist við mikilli stemmningu í Jakanum á Torfnesi.

Vestri endaði í 4. sæti í deildinni en er búin að senda Fjölni og Skallagrím í sumarfrí í úrslitakeppninni. Vestri vann tvö fyrstu einvígin 2-0 og 3-0 sem þýðir að liðið hefur unnið sjö af átta leikjum sínum í úrslitakeppninni.

Hinn 33 ára gamli Nemanja Knezevic er í aðalhlutverki hjá liðinu en hann er með 16,5 stig og 17,8 fráköst að meðaltali í leik í úrslitakeppninni. Knezevic er á sínu fjórða tímabili með liðinu.

Tvíburarnir Hugi og Hilmir Hallgrímsson eru á fullu í tveimur úrslitakeppnum á sama tíma en þeir skiptu yfir í Stjörnuna fyrir þetta tímabil. KFÍ fékk sína stráka til að spila með þeim á venslasamningi í 1. deildinni en þeir eru líka í hóp hjá Garðabæjarliðinu í úrslitakeppni Domino´s deildarinnar.

Saman voru þeir með 24 stig í síðasta leik, Hlmar skoraði 10 stig og gaf 3 stoðsendingar en Hugi var með 14 stig, 5 fráköst og 2 varin skot. Strákarnir eru fæddir árið 2002 og er því enn bara nítján ára gamlir.

Vestramenn eru að auglýsa leikinn í kvöld og þar kom fram mjög skemmtileg staðreynd frá undirbúningi fyrsta heimaleiks liðsins í úrslitaeinvíginu.

Fjórir fyrrum þjálfarar meistaraflokks Vestra/KFÍ lögðu hönd á plóg við umgjörð síðasta heimaleiks. Guðni Guðnason skrifaði leikskýrslu, Birgir Örn Birgisson grillaði hamborgara af stakri prýði og þeir Baldur Ingi Jónasson og Yngvi Páll Gunnlaugsson tóku til hendinni í uppsetningu og frágangi.

Pétur Már Sigurðsson er núverandi þjálfari Vestramanna en hann er annar leikjahæsti maður félagsins í úrvalsdeild á eftir Baldri Inga. Pétur Már spilaði 112 leiki með KFÍ í úrvalsdeildinni á sínum tíma en hann var á Ísafirði í sex tímabil.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.