Handbolti

Staðfesta það að Agnar Smári verður í banni á föstudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Agnar Smári Jónsson spilar næst í úrslitaeinvíginu takist liðsfélögum hans að koma Valsliðinu þangað.
Agnar Smári Jónsson spilar næst í úrslitaeinvíginu takist liðsfélögum hans að koma Valsliðinu þangað. Vísir/Hulda Margrét

Valsmaðurinn Agnar Smári Jónsson mun ekki spila með Val í seinni leiknum á móti ÍBV í undanúrslitum Olís deildar karla í handbolta.

Aganefnd Handknattleikssamband Íslands hefur úrskurðað Agnar Smára í eins leiks bann. Hann tekur út bannið í leik Vals og ÍBV í Origo höllinni á Hlíðarenda á föstudagskvöldið.

HSÍ birti úrskurðinn á heimasíðu sinni en hann má sjá hér.

Agnar Smári hlaut útilokun með skýrslu vegna óíþróttamannslegrar hegðunar í leik ÍBV – Vals í Úrslitakeppni Olís deildar karla þann 8. júní 2021.

Agnar braut þá á Hákoni Daða Styrmissyni þegar Eyjamenn voru að bruna í hraðaupphlaup á lokasekúndum leiksins. ÍBV fékk vítakast og minnkaði muninn í tvö mörk en Anton Rúnarsson náði að koma Valsmönnum aftur yfir með skoti af átján metra færi rétt áður en leiktíminn rann út.

Þetta var annar leikurinn í röð sem hann fær rautt spjald en hann slapp við bann eftir fyrra rauða spjaldið.

Valsmenn munu sakna Agnars Smára í þessum úrslitaleik um sæti í lokaúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn. Hann skoraði fimm mörk úr níu skotum í fyrsta leiknum og átti einnig fimm stoðsendingar.

Agnar er markahæsti leikmaður Vals í úrslitakeppninni með fjórtán mörk í þremur leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×