Viðskipti innlent

„Ekki kær­komin hvíld, en mætum nú öflugri til leiks“

Atli Ísleifsson skrifar
Friðrik Rafnsson, leiðsögumaður og þýðandi, var kjörinn nýr formaður Leiðsagnar - Félags leiðsögumanna á aðalfundi í gær.
Friðrik Rafnsson, leiðsögumaður og þýðandi, var kjörinn nýr formaður Leiðsagnar - Félags leiðsögumanna á aðalfundi í gær. Vísir/Vilhelm

Friðrik Rafnsson var kjörinn nýr formaður Leiðsagnar - Stéttarfélags leiðsögumanna á aðalfundi í gær. Friðrik hefur verið ritari félagsins síðasta árið og tekur við starfinu af Pétri Gauta Valgeirssyni.

Tveir voru í framboði til formanns – Friðrik og Óskar Kristjánsson sem hefur verið gjaldkeri félagsins.

Friðrik segir í samtali við Vísi að stétt leiðsögumanna hafi verið algerlega lömuð síðasta rúma árið, líkt og margar aðrar stéttir í ferðaþjónustu. 

„Við sjáum skýr merki þess að þetta sé að breytast. Fólk er farið að bóka sig og það er allt að síga af stað. Við höfum notað tímann mjög vel, í endurskipulagningu innan félagsins og gera okkur klár. Við höfum líka verið að endurmennta og bæta í fróðleikssarpinn. Við erum klár í viðspyrnuna og viljum gera það mjög faglega og vel. 

Við höfum aðeins verið vör við það – það eru náttúrulega svartir sauðir alls staðar – en það eru einhver fyrirtæki sem vilja fá menn eingöngu í verktöku eða eru með smá tilbrigði til að nýta sér þetta ástand. Svo hefur maður líka heyrt fleiri fréttir sem betur fer að menn vilji faglærða og reynda leiðsögumenn sem taka vel á móti okkar erlendu vinum,“ segir Friðrik. 

Lykilfólk

Friðrik segir leiðsögumenn líta svo á að þeir séu lykilfólk í ferðaþjónustunni. 

„Við erum gestgjafar. Ef fólk kemur til landsins og leiðsögumaðurinn nær í það út á flugvöll þá er hann sá Íslendingur sem þau eru með í viku, er andlit íslensku þjóðarinnar út á við. Svo eru að sjálfsögðu hótelstarfsmenn, fólk í veitingageira og svo framvegis, en við erum samfellan og berum ansi mikla ábyrgð á að frí þessa fólkjs takist sem best. Þetta er ofboðslega skemmtilegt starf, en í því felst mikil ábyrgð sem við tökum alvarlega.

Eftir að hafa, má segja, hlaupið á færibandi í tíu ár, og margir orðnir ansi langþreyttir í bransanum, þá var þetta auðvitað ekki kærkomin hvíld, en mætum nú öflugri til leiks,“ segir Friðrik. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×