Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Haukar 23-28 | Haukar komnir með annan fótinn í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurganga Hauka hélt áfram í kvöld.
Sigurganga Hauka hélt áfram í kvöld. Vísir/Vilhelm

Haukar unnu sinn fimmtánda leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Stjörnunni, 23-28, í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Haukar fara því með fimm marka forskot í seinni leikinn á Ásvöllum á föstudaginn kemur.

Eftir erfiða byrjun náðu Haukar yfirhöndinni um miðbik fyrri hálfleiks og voru sjö mörkum yfir, 8-11, að honum loknum. Stjarnan gerði áhlaup í seinni hálfleik en náði aldrei að minnka muninn í minna en þrjú mörk.

Geir Guðmundsson og Darri Aronsson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Hauka. Liðsheild Hafnfirðinga var gríðarlega sterk en tólf leikmenn liðsins komust á blað í leiknum. Björgvin Hólmgeirsson átti frábæran leik fyrir Stjörnuna og skoraði tíu mörk. Nafni hans, Páll Gústavsson, varði fjórtán skot (fjörutíu prósent) í marki Hauka.

Stjarnan byrjaði leikinn af miklum krafti. Brynjar Darri Baldursson varði vel og Stjörnumenn komust tvisvar sinnum þremur mörkum yfir.

Haukar voru lengi í gang en í stöðunni 6-4 fóru þeir svo sannarlega í gang. Gestirnir skoruðu fjögur mörk í röð og eftir 7-1 kafla komust þeir fjórum mörkum yfir, 7-11.

Stjarnan minnkaði muninn í þrjú mörk, 8-11, þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Haukar svöruðu með fjórum mörkum í röð og fóru með sjö marka forskot til búningsherbergja, 8-15.

Þrátt fyrir erfiða stöðu var mikill hugur í Stjörnumönnum í byrjun seinni hálfleiks. Þeir skoruðu fimm af fyrstu sex mörkum hans og minnkuðu muninn í þrjú mörk, 13-16. Darri svaraði með tveimur mörkum í röð og jók forskot Hauka í fimm mörk, 13-18.

Stjörnumenn gáfust ekki upp og héldu áfram að þjarma að Haukum. Þeim vantaði þó markvörslu til að láta þá svitna almennilega. Björgvin skoraði og skoraði en vantaði meiri hjálp frá samherjum sínum.

Björgvin minnkaði muninn í þrjú mörk, 22-25, þegar fjórar mínútur voru eftir. Þær nýttu Haukar sér einstaklega vel, skoruðu þrjú af síðustu fjórum mörkum leiksins og unnu fimm marka sigur, 23-28. Þeir eru því í afar vænlegri stöðu fyrir seinni leikinn.

Af hverju unnu Haukar?

Gestirnir úr Hafnarfirði voru lengi í gang en um miðjan fyrri hálfleik small vörnin í gang og Björgvin Páll byrjaði að verja. Stjarnan skoraði aðeins tvö mörk á síðustu nítján mínútum fyrri hálfleiks og þessi langi slæmi kafli reyndist Garðbæingum dýr þegar uppi var staðið.

Stjörnumenn gerðu heiðarlega tilraun til að minnka forskot Hauka í seinni hálfleik en gestirnir stóðust áhlaupið og enduðu leikinn svo vel.

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin heldur áfram að spila eins og árið sé 2015 og raðaði inn mörkum. Hann skoraði tíu mörk, þar af átta í seinni hálfleik.

Björgvin Páll byrjaði rólega en náði sér svo vel á strik og skilaði flottum leik. Darri og Geir áttu góða kafla í sókninni og Haukavörnin var svo mjög öflug, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Hvað gekk illa?

Eins og í leikjunum gegn Selfossi í átta liða úrslitunum fann Tandri Már Konráðsson sig ekki í sókninni í kvöld. Afmælisbarn dagsins skoraði aðeins þrjú mörk í ellefu skotum.

Gríðarlega mikill munur var á markvörslu liðanna í leiknum. Á meðan Björgvin Páll varði fjórtán skot (fjörutíu prósent) voru markverðir Stjörnunnar aðeins með samtals ellefu skot (28 prósent) og alltof mörg viðráðanleg skot enduðu í netinu.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast í annað sinn á föstudaginn. Stjörnumanna bíður erfitt verkefni en þeir þurfa að vinna upp fimm marka forskot Hauka sem hafa ekki tapað leik í háa herrans tíð.

Patrekur: Talaði bara á rólegu nótunum við þá

Patrekur Jóhannesson sagði frammistöðu Stjörnunnar framan af leik og seinni hálfleik hafa verið góða.vísir/hulda margrét

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur að tapa með fimm marka mun fyrir Haukum í kvöld. Hann sagði hins vegar að dagurinn hefði verið góður fyrir félagið Stjörnuna.

„Fyrstu fimmtán mínúturnar voru flottar en síðan skiptu Haukar reglulega inn á og það komu alltaf nýir menn inn á. Ég var fúll með okkur seinni hluta fyrri hálfleiks. Þá lentum við í mótlæti og gáfum svolítið eftir,“ sagði Patrekur við Vísi eftir leik.

„Í seinni hálfleik sýndu menn að þeir voru ekki alveg hættir og komu sér ágætlega inn í leikinn. En það er svekkjandi að fleygja boltanum klaufalega frá sér og þetta hefði getað endað í þremur til fjórum mörkum sem hefði getað skipt öllu. Haukarnir voru mjög sterkir og unnu þetta sanngjarnt. En það er einn leikur eftir og við sjáum hvað gerist.“

Stjörnumenn voru í afar erfiðri stöðu í hálfleik enda sjö mörkum undir, 8-15.

En hver voru skilaboðin til leikmanna í hálfleiknum?

„Þau voru svo mörg. Ég talaði bara á rólegu nótunum við þá. Þetta eru frábærir drengir. Stjarnan er ekki vön að vera í þessari stöðu og mér fannst þeir skulda sjálfum sér og þetta var persónuleikadæmi; spurning um karakter og njóta þess að spila þennan leik. Þetta stress og hik í fyrri hálfleik var óþægilegt og leiðinlegt en mér fannst þeir gera þetta vel í seinni hálfleik,“ svaraði Patrekur sem er hóflega bjartsýnn fyrir seinni leikinn á föstudaginn.

„Í íþróttum getur allt gerst og ég gefst aldrei upp en veit að þetta verður krefjandi á Ásvöllum.“

Leikurinn í kvöld var sá fyrsti í sögu Stjörnunnar í undanúrslitum karla. Dagurinn var því stór fyrir félagið og fjölmargir lögðu leið sína í TM-höllina þar sem hefur oftar en ekki verið frekar tómlegt um að litast undanfarin ár.

„Ég er alltaf svekktur að tapa en að sjá fullt hús hérna og það er ótrúlega mikið af öflugu fólki að vinna í kringum þetta. Við erum komnir í undanúrslit í fyrsta sinn. Við og fleiri í gamla daga náðum þessu ekki einu sinni,“ sagði Patrekur.

„Ég er mjög ánægður með margt í dag en við vissum að Haukarnir væru þéttir og náðum ekki að leysa það. En ég er hrikalega ánægður með félagið Stjörnuna í dag.“

Aron: Ánægður að fara með fimm marka sigur héðan

Aron Kristjánsson var sáttur með hvernig Haukar svöruðu áhlaupi Stjörnunnar í seinni hálfleik.vísir/vilhelm

„Ég er sáttur með að vinna þennan leik með fimm mörkum miðað við hvernig þeir voru farnir að saxa á þetta. Það var mjög sterkt að ná upp fimm marka forskoti,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, eftir sigurinn á Stjörnunni í kvöld.

„Stjarnan tók mikla áhættu í seinni hálfleik til að ná upp þessu forskoti og gerðu áhlaup en við gerðum vel og náðum að byggja upp fimm marka forskot.“

Haukar voru lengi í gang en í stöðunni 6-4, fyrir Stjörnuna, stigu Hafnfirðingar á bensíngjöfina og skoruðu ellefu af síðustu þrettán mörkum fyrri hálfleiks.

„Við vorum ekki nægilega beittir í byrjun og klikkuðum á færum. En svo náðum við tökum á okkar leik, fórum að spila betur og ég var mjög ánægður með síðustu 15-20 mínúturnar í fyrri hálfleik,“ sagði Aron.

Stjarnan sótti að Haukum í seinni hálfleik en náði aldrei að minnka muninn í minna en þrjú mörk.

„Þeir gerðu þetta gegn Selfossi þar sem þeir keyrðu og keyrðu síðustu tuttugu mínúturnar og tóku mikla áhættu. Það heppnaðist þá en þú getur líka fengið það í bakið. Þeir unnu á en við náðum að bæta í undir lokin en Stjarnan er með hörkulið. Ég er ánægður að fara með fimm marka sigur héðan,“ sagði Aron.

Honum finnst sínir menn þó geta spilað enn betur en þeir gerðu í kvöld. „Já, mér fannst við vera svolítið mikið af vitleysum og klárlega munum við reyna að bæta okkar leik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira