Skoðun

Óvarleg notkun ilmkjarnaolíu allt of algeng

Heiða Björk Sturludóttir og Melanie L. Gravette skrifa

Á síðustu árum hafa vinsældir ilmkjarnaolía (IO) aukist mikið með bættum rannsóknum á virkni þeirra og auknum áhuga almennings á náttúrulegum vörum og meðferðum. Þær má orðið finna bæði á netinu og í verslunum. Almenningur notar olíurnar í auknum mæli til að bæta ilm í híbýlum, útí vatnið í þvottavélinni, sem áburð á frunsur og bólur, til slökunar eða sem skordýrafælu, svo eitthvað sé nefnt. Talsvert er einnig um það að almenningur taki olíurnar inn, og er það, ásamt annarri óvarlegri notkun, ástæða þessara greinaskrifa. En, þau eru ófá tilvikin þar sem skaði hefur hlotist af óvarlegri notkun IO enda getur sama magn olíunnar innihaldið fimmtíu til hundrað sinnum meira af hinum virku efnum en jurtin sjálf. (1)

Upplýsingar um örugga notkun á IO eru þó auðfundnar með því að lesa fræðsluefni frá samtökum ilmkjarnaolíufræðinga (AIA, NAHA, IFPA) viðurkenndum IO skólum og menntuðum ilmkjarnaolíufræðingum.

Olíurnar þarf líka að umgangast af virðingu þar sem um dýrmæta náttúruauðlind er að ræða og óhófleg notkun hefur í för með sér mikinn ágang á jurtirnar og eru dæmi um að vinsælir framleiðendur brjóti lög til að verða sér úti um fágætar jurtir til olíugerðar. (2) Það þarf mjög mikið magn af jurtinni til að framleiða örfáa dropa af ilmkjarna olíu, eins og búlgarskur framleiðandi, bendir á, en hún segist þurfa 40 til 80 kíló af rósablöðum til að fá eina litla 10g flösku af IO. (1)

Hlutverk ilmkjarnaolíufræðinga

IO eru notaðar á margvíslegan hátt en notkun þeirra má skipta í tvo flokka.

Í fyrsta lagi er um að ræða heildræna aðferð þar sem þynnt olían er borin á húð eða henni er andað inn t.d. með notkun ilmpinna. Til að vita hvaða olíu sé rétt að nota, í hvaða magni og hvaða burðarolíu sé best að nota er oft skynsamlegt að leita ráðgjafar ilmkjarnaolíufræðinga sem þekkja efnafræði olíanna, hvaða áhrif þær hafa, hugsanlegar hliðarverkanir og önnur atriði tengd öruggri notkun olíanna. Í öðru lagi eru um að ræða læknisfræðilega meðferð sem framkvæmd er af ilmkjarnaolíufræðingum með læknisfræði eða lyfjafræði bakgrunn. Læknisfræðilega meðferðin getur falið í sér að taka olíurnar inn, t.d. útbúnar í belgjum og er það eingöngu gert í samráði við ilmkjarnaolíufræðinga með slíkan bakgrunn, enda þarf í þeim tilvikum að hafa þekkingu á því hvernig meltingarfærin og ýmis líffæri svo sem nýru og lifur vinna úr olíunum.

Ákveðin blanda af þessum tveimur flokkum, oft kölluð klínísk ilmkjarnaolíumeðferð, er nýlegt fyrirbæri. Mismunandi er eftir löndum hvers konar bakgrunnur eða menntun er nauðsynleg til að geta veitt slíka þjónustu en ef um er að ræða inntöku olíunnar er almennt gert ráð fyrir að meðferðaraðilinn hafi heilbrigðismenntun til viðbótar við menntun á sviði ilmkjarnaolía. (3)

Til viðbótar má einnig nefna almenna heimilisnotkun sem felur m.a. í sér að olía er borin á húð, þynnt með burðarolíum, eða notkun ilmolíudreifara. Yfirleitt er slík hófleg notkun hættulaus en þar sem efnisfræðilegt innihald olía sem bera saman nafn getur verið mismunandi er stundum nokkur óvissa um gagnsemi.

Sú menntun og bakgrunnur sem þarf til að tryggja rétta notkun IO fer því eftir hver af þessum aðferðum eru notuð.

Stígðu varlega til jarðar

Ef olíurnar eru notaðar af þekkingu geta þær ýtt undir vellíðan á líkama og sál.

Mikill fjöldi klínískra rannsókna hefur sýnt fram á jákvæða virkni olíanna gegn kvíða, þunglyndi, iðraólgu, streitu, verkjum, bólgum, sýkingum, svefnleysi svo eitthvað sé nefnt. Einnig hefur verið sýnt fram á virkni þeirra á heilann og áhrif á tilfinningar.4

Aldrei er mælt með því að olíurnar séu settar út í drykk svo sem vatn eða djúsa. Það er vegna þess að olía og vatn blandast ekki og olíurnar leggjast því óþynntar að viðkvæmri slímhúð, munns, koks, vélinda og maga.7 Þá þarf einnig að hafa í huga að IO eru ekki fæðubótarefni.3 Það er því t.d. afar varhugavert þegar söluaðilar með takmarkaða eða enga menntun í ilmkjarnaolíufræðum hvetja fólk til að taka olíurnar inn blandaðar í vökva eða mat eða bera á sig óþynntar.

Í tilkynningum um aukaverkanir sem teknar hafa verið saman t.d. af Aromatherapy United og Tisserand Institute, má sjá að óvarleg notkun olíanna hefur valdið brjóstsviða, ógleði, magaverkjum, særindum í hálsi og útbrotum á húð svo fátt eitt sé nefnt. Flest tilfellin orsakast af því að olía var borin óþynnt á húð eða innbyrt. Þó jurtir og olíur þeirra séu náttúrulegar geta þær haft mikil áhrif og þarf ekki að leita lengra en að tröllahvönninni íslensku, sem getur valdið bruna við viðkomu. Skráð tilfelli eru þó hlutfallslega ekki mörg, en vandinn kemur ekki alltaf strax í ljós og oft tengir fólk vandann ekki við olíurnar.

Skaðleg notkun IO hefur mikið verið rannsökuð hjá sérfræðingum í ilmkjarnaolíufræðum og fjöldinn allur af ritum verið gefinn út um eituráhrif á fóstur, lifur, taugakerfi og á börn.5 Rit Robert Tisserand og Rodney Young um örugga notkun IO er grundvallarrit í fræðunum, enda má finna ítarlegar upplýsingar um öryggi IO byggðar á vönduðum rannsóknum í þessu 780 síðna riti.

Það er eins með þetta og annað sem er skaðlegt heilsunni; skaðinn sýnir sig ekki alltaf strax, heldur getur safnast upp á mörgum árum þar til eitthvað gefur sig. Hér verður stuttlega fjallað um nokkrar leiðir við notkun olíanna – sumar öruggar og aðrar ekki.

1.  Olíur bornar á húð

Að bera olíurnar óþynntar á húð felur í sér áhættu þar sem þær eru mjög sterkar. Til þess að koma í veg fyrir ertingu á húð eða ofnæmisviðbrögð þarf að blanda IO saman við burðarolíu eins og kókos-, möndlu- eða aðra olíu og nota aðeins það magn af IO sem þörf er á. Þannig nást fram hin góðu áhrif sem sóst er eftir og með lágmarks áhættu. Magn IO í burðarolíu er síðan mismunandi þar sem þær hafa mismunandi efnasamsetningu og þurfa mismikla þynningu. Þar að auki er fólk mismunandi og sumir þola minni styrk en aðrir og sumir þurfa alfarið að sleppa notkun ákveðinna olía. Sem dæmi má nefna að fólk á blóðþynnandi lyfjum ætti að forðast Wintergreen og Sweet Birch vegna efnasambandsins methyl salicylate sem finnst í þeim olíum. Því er best að ráðfæra sig við sérfræðing í ilmkjarnaolíufræðum eða afla sér vandaðra upplýsinga áður en lagt er af stað í notkun þeirra.(6) (7) (8)

2.  Ilmkjarnaolíur blandast ekki við vatn eins og í baði eða heitum potti

Ef matskeið af matarolíu er blandað saman við vatn í glasi mun olían fljóta á yfirborðinu. Það gæti sýnst sem olían hafi blandast við vatnið ef glasið er hrist af krafti. En olían aðskilur sig síðan fljótlega aftur. Sama gerist með IO. Þær aðskilja sig frá vatninu, fljóta ofaná, leggjast að húðinni og geta valdið mjög óþægilegri ertingu. (7)

Í stað þess að setja IO beint út í baðvatnið ætti að blanda þeim fyrst saman við hentugan burðarvökva t.d. castile sápu sem er fáanleg í heilsuvörubúðum.

3.  Olían tekin inn

Að taka olíurnar inn er skilgreint sem notkun til lækninga og heyrir undir þá ilmkjarnaolíufræðinga sem hafa læknis- eða lyfjafræðibakgrunn.

Flest tilvik alvarlegrar eitrunar af völdum ilmkjarnaolía eru vegna þess að olían var gleypt eða drukkin.8 Rhiannon Lewis, virtur læknismenntaður ilmkjarnolíufræðingur, útskýrir að IO sem teknar eru inn, séu aðeins gagnlegar í mjög afmörkuðum tilfellum og í skamman tíma í einu. Hún segir þær ekki hafa neitt næringargildi, en séu áhrifaríkar til heilunar. Styrkur þeirra getur skekkt jafnvægi líkamans svo sem í þarmaflórunni, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Það þarf að greina hvert tilvik af sérfræðingi sem er með réttindi til sjúkdómsgreiningar og ávísa á notkun ilmkjarnaolía eins og lyf til lækninga. Slík notkun á IO, nær vanalega ekki yfir lengra tímabil en eina viku. (3)

Eins og áður hefur komið fram, leysast olíurnar ekki upp í vatni. Ef þær eru teknar inn í vatnsglasi, geta þær lagst að viðkvæmri slímhúð í munni og meltingarvegi. Merki um ertingu gera oft ekki vart við sig fyrr en skaðinn er orðinn umtalsverður. (7)

Merkingin GRAS (Generally Recognized As Safe) sem stundum sést á glösum ilmkjarnaolíu, á við um afmarkaða notkun þeirra sem bragðefni í mat. Þessi merking á ekki við um notkun þeirra í læknisfræðilegum tilgangi. (7) Staðreyndin er, samkvæmt Samtökum breskra ilmkjarnolíufræðinga (IFPA), að það eru engir viðurkenndir staðlar til í ilmkjarnaolíufræðunum sem segja til um það að ákveðinn hreinleiki eða magn IO sé í lagi til inntöku. (6)

4.  Innöndun og ilmolíudreifarar

Þegar IO er dreift í sérstökum lömpum eða ilmolíudreifurum er öruggara og áhrifaríkara að dreifa olíunum með hléum því líkamar okkar verða fljótt vanir olíunum og þá minnka áhrifin. Dreifa má olíunni í 30-60 mín og slökkva í 30-60 mín. Gæta þess að lofta vel um rýmið t.d. með því að opna glugga. Ef IO er andað að sér yfir gufu á ekki að anda þeim að í meira en 15-20 mínútur.(7) Sumir þola olíurnar illa og ilmur sem einum finnst unaðslegur finnst öðrum ertandi. Það er afar mikilvægt að hafa í huga að börn, gæludýr og sumir fullorðnir geta ekki látið vita ef þeim líður illa vegna olíunnar sem dreift er út í loftið.

5.  Börn og aldraðir

Húð barna og aldraðra er þunn og getur þ.a.l. drukkið í sig meira af IO en húð flestra heilbrigðra fullorðinna. Líkamar barna og aldraðra eiga oft erfiðara með vinna úr hugsanlegum neikvæðum afleiðingum IO. Því þarf að þynna olíurnar meira fyrir þennan hóp. Sem dæmi má nefna að efnasambandið menthol og 1,8-cineole sem finnst í piparmintu, eucalyptus og fleiri olíum, getur valdið öndunarerfðileikum í börnum undir 6 ára aldri. Einnig, Sweet Birch og Wintergreen á alfarið að halda frá börnum vegna möguleikans á að olíurnar ýti undir þróun Reye´s heilkennis. (8) Sem meginregla er best að nota olíurnar ekki á börn undir 5 ára aldri og gæta mikillar varúðar með eldri börn og aldraða.

6.  Blessuð gæludýrin

Gæludýrin okkar eru margfalt viðkvæmari en mannfólkið fyrir olíunum. Karen Williams, hjúkrunafræðingur, ilmkjarnaolíufræðingur og kennari, setur fram nokkrar meginreglur varðandi gæludýr og notkun olíanna á þau eða í nálægð þeirra.

·Ekki dreifa IO í litlum rýmum þar sem dýrið hefur ekki flóttaleið.

·Ekki nota IO sem dýrið virðist ekki kunna við eða reynir að komast í burtu frá.

·Ekki setja IO í mat dýranna.

·Ekki nota IO (þynntar eða óþynntar) á feld eða húð dýranna. (9)

7.  Tilfelli þar sem ráðið er frá því að nota olíurnar

Í þeim tilfellum þar sem um er að ræða króníska sjúkdóma, húðvandamál, meðgöngu eða brjóstagjöf, notkun lyfja eða þegar vafi ríkir um hugsanleg sjúkdómseinkenni skal leita ráðgjafar hjá viðeigandi sérfræðingi í ilmkjarnaolíufræðum. (7)

Lokaorð

Þessi grein er ekki tæmandi en við teljum að það séu margar leiðir til að njóta ilmkjarnaolía á öruggan hátt þegar notendur eru meðvitaðir um það sem ber að varast. Viðurkenndir sérfræðingar geta vissulega hjálpað í samræmi við þekkingu þeirra og reynslu. Þeir geta einnig leiðbeint um hvernig notendur geta sjálfir metið og ákveðið hvaða olíur skuli velja, með upplýsingum um hvað beri að hafa í huga. Það eru jafnframt mörg námskeið í boði hjá viðurkenndum sjálfstæðum skólum. Upplýsingar um slíka skóla má finna hjá stærri samtökum ilmkjarnaolíufræðinga (IFPA, AIA, NAHA, o.fl.).

Ilmkjarnaolíur hafa marga vel rannsakaða afbragðseiginleika og notkunarmöguleika til að bæta heilsu og vellíðan en gæta þarf að öryggi við notkun þeirra.

Heiða Björk Sturludóttir er sagnfræðingur og umhverfisfræðingur

Melanie L. Gravette, MBA og ilmkjarnaolíufræðingur

Heimildir

[1] Regelous, S. ,,Inspired by roses" In Essence, vol. 18, no. 2, pp. 48 - 50, 2020

[2] The United States Department of Justice. 18. september 2017. ,,Essential Oils Company Sentenced for Lacey Act and Endangered Species Act Violations to Pay $760,000 in Fines, Forfeiture, and Community Service, and to Implement a Comprehensive Compliance Plan.” Sótt 29. mars 2021 af https://www.justice.gov/opa/pr/essential-oils-company-sentenced-lacey-act-and-endangered-species-act-violations-pay-760000

[3] Lewis, R., Internal Use of Essential Oils, tölvupóstsamskipti við R. Lewis þann 2. febrúar 2021

[4] NAHA, ,,Research & References." https://naha.org/explore-aromatherapy/research/

[5] Tisserand, Robert, ,,Why Safety Is Important" Tisserand Institute.https://tisserandinstitute.org/why-safety-is-important/

[6] International Federation of Professional Aromatherapists. 11. maí 2019. (2. útgáfa.) ,,Statement on Internal Neat Use of Essential Oils.” https://ifparoma.org/wp-content/uploads/2019/07/Statement-on-Internal-Neat-Use-of-Essential-Oils.pdf

[7] Tisserand Institute, ,,Safety Guidelines," https://tisserandinstitute.org/safety-guidelines/

[8] Tisserand, Robert and Young, Rodney, Essential Oils Safety: A Guide for Health Care Professionals, 2nd ed., Churchill Livingstone Elsevier, 2014

[9] K. Williams, ,,Safety Tips When Using Aromatherapy with Pets" Aromahead Institute.https://blog.aromahead.com/using-aromatherapy-safely-with-pets-acp



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×