Skoðun

Starfs­vett­vangur barnanna okkar er ekki til í dag

Bryndís Haraldsdóttir skrifar

Mörg af stærstu fyrirtækjum dagsins í dag voru ekki til fyrir 10 árum en það eru m.a. fyrirtæki á sviði tækni og stafrænna lausna. Miklar líkur eru á að starfsvettvangur barna okkar í framtíðinni sé ekki til í dag. Hraðar tækninýjungar og breytt viðhorf eru að valda miklum þjóðfélagsbreytingum. Við þurfum að tileinka okkur þessar breytingar og stjórnvöld þurfa að greiða fyrir þessum breytingum, bæði í atvinnulífinu og menntakerfinu.

Atvinnulífið þarf auk þess að huga að auknu samstarfi, því þrátt fyrir samkeppni geta fyrirtæki unnið saman að stærri verkefnum eins og rannsókna- og þróunarverkefnum og þannig bætt samkeppnishæfni sína á alþjóðavísu. Gott dæmi um slíkt má sjá í t.d. sjávarútvegs, ál- ferða- og jarðhita klösunum. Atvinnulífið þarf að sýna metnað í samfélagslegri nýsköpun þar sem hugað er að hagsmunum samfélagsins og þar með fyrirtækisins til lengri tíma litið.

Atvinnulíf er ekki eyland

Íslenskt atvinnulíf er ekki eyland og þaðan af síður nýsköpun, rannsóknir þróun og fjármögnun þess. Íslenskt atvinnulíf þarf á því að halda að hafa góðan aðgang að stærri mörkuðum bæði þegar kemur að því að selja afurðir sínar en einnig þegar kemur að rannsóknar- og þróunar samstarfi svo og fjármögnun nýsköpunarverkefna. Stjórnvöld þurfa að tryggja að þessi aðgangur sé til staðar t.d í gegnum EES samninginn en einnig með fríverslunarsamningum og samstarfi við aðra heimshluta.

Greinar sem byggja á óþrjótandi hugarafli

Til framtíðar þurfum við að tryggja meiri fjölbreytileika í íslensku atvinnulíf, efnahagur okkar má aldrei ráðast af afkomu eins fyrirtækis eða einnar atvinnugreinar. Nauðsynlegt er að horfa til greina sem ekki nýta náttúruauðlindir heldur greinar sem fyrst og fremst byggja á hinu óþrjótandi hugarafli. Það geta verið tölvuleikir, líftækni, örtækni, hönnun eða eitthvað allt annað jafnvel eitthvað sem við höfum ekki hugmyndaflug í í dag. Við skulum muna að stærstu fyrirtæki heims voru vart til fyrir 10 árum. Fjórða iðnbyltingin er í fullu fjöri og við Íslendingar eigum og ætlum að vera með í því fjöri.

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Alþingi samþykkti á árinu aukinn stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Annars vegar er um að ræða framlengingu og einföldun skilyrða til skattaívilnunar vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum. En sú aðgerð ætti að auðvelda nýsköpunarfyrirtækjum að auka hlutafé og efla rekstur sinn. Hins vegar er um að ræða umtalsverða hækkun viðmiðunarfjárhæða skattafrádráttar eða endurgreiðslna vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Nýsköpunarstefna hefur verið samþykkt. Stofnaður hefur verið vísissjóðurinn Kría sem auðvelda á sprotafyrirtækjum fjármögnun. Allar þessi aðgerð ætti að hvetja enn frekar til fjárfestingar í rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Ég vil halda áfram á þessari braut og koma okkur yfir erfiðleikana í efnahagslífinu með því að greiða veg og vanda nýsköpunar á Íslandi.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi býður sig fram í 2. sætið í komandi prófkjöri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.