Handbolti

Þórsara hent út úr KA-heimilinu eftir bræðikast

Sindri Sverrisson skrifar
Það sauð upp úr utan vallar í spennuleik KA og Þórs í gærkvöld.
Það sauð upp úr utan vallar í spennuleik KA og Þórs í gærkvöld. Stöð 2 Sport

Áhorfandi á Akureyrarslag KA og Þórs missti stjórn á skapi sínu í lok leiks, grýtti niður skiltum og hrópaði inn á völlinn áður en honum var hent út úr KA-heimilinu.

Um var að ræða síðasta leik Þórs í Olís-deild karla í handbolta í bili en liðið var fallið niður um deild fyrir leikinn við KA í gær. Staðan í leiknum var jöfn þegar Þórsarar fóru í lokasókn sína sem endaði með marki, en dómarar leiksins virtust gera mistök þegar þeir dæmdu aukakast rétt áður en markið var skorað. Leiktíminn rann út og niðurstaðan varð því jafntefli.

Við þetta rauk einn harðasti stuðningsmaður Þórs úr efstu sætaröð niður að hliðarlínu, henti skiltum um koll og gerði hróp að dómurunum. Stuðningsmaðurinn, sem setið hefur í stjórn handknattleiksdeildar Þórs og er fyrrverandi leikmaður liðsins, var gripinn föstum tökum og leiddur út úr húsi um leið.

Atvikið má sjá í myndskeiðinu hér að neðan.

Klippa: Stuðningsmaður Þórs dreginn í burtu

Eins og fyrr segir leika Þórsarar í næstefstu deild á næstu leiktíð eftir að hafa leikið sem nýliðar í Olís-deildinni í vetur. KA er á leið í einvígi við Val í 8-liða úrslitum og er fyrri leikurinn í KA-heimilinu næsta þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×