Handbolti

Finnst við eiga meira skilið úr þessu tíma­bili

Dagbjört Lena skrifar
Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram.
Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram. vísir/vilhelm

Sebastian Alexandersson var ótrúlegt en satt ekki það glaður er hann mætti í viðtal eftir tólf marka sigur Fram á Gróttu í Olís deild karla í handbolta í dag.

„Eins og ég er ánægður með framkvæmdina á leiknum sem slíkum þá er ég ekkert í góðu skapi. Það er staðfest núna að við förum ekki í átta liða úrslit og ég er alltaf ósáttur ef ég næ ekki markmiðum mínum. En það er engum um það að kenna nema okkur sjálfum. Við erum búnir að henda frá okkur þremur stigum í vetur og það er ótrúlegt að eins árs vinna sé að fara í vaskinn útaf nokkrum andartökum. Það er súrt að kyngja því en svona er þetta bara. Smáatriðin skipta máli þegar uppi er staðið.“

„Eftir síðasta leik á móti Selfossi, sem var svona eini leikurinn í vetur þar sem við vorum bara gjörsamlega úr karakter og ólíkir sjálfum okkur og þeim gildum sem stöndum fyrir. Við höfum spilað hörkuleiki í allan vetur. Við höfum alveg átt slæman dag en alltaf spilað hörkuleiki á móti öllum andstæðingunum í deildinni og mér finnst við eiga meira skilið úr þessu tímabili. En eins og ég segi, það voru alltof margir hörkuleikir sem fóru vitlausu megin en þessi þrjú stig, þessi tvö á móti ÍBV og þetta óþarfa jafntefli á móti Stjörnunni situr alveg rosalega í mér og ég verð alveg í mörg ár að jafna mig á því.“

Fram unnu öruggan tólf marka sigur á Gróttu, 32-20. Þeir spiluðu virkilega vel bæði varnarlega og sóknarlega en þeir hafa átt erfitt uppdráttar núna seinni part tímabilsins.

„Strákarnir voru frábærir í dag, svo ég snúi mér að jákvæðari hlutum. Við fundum varnarleikinn okkar aftur og markvarslan kom strax með og hraðaupphlaupin voru góð. Sóknarleikurinn rúllaði fínt og margir með framlag og allir sem komu inná gerðu eitthvað gott. Það voru líka margar skemmtilegar fléttur sem við settum upp í í dag sem virkuðu og bara mjög gaman.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×