Um­fjöllun og við­töl: Fram - Haukar 29-35 | Haukar á­fram á sigur­braut

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Atli Már Báruson og félagar í Haukum þurfa aðeins einn sigur í viðbót til að verða deildarmeistarar.
Atli Már Báruson og félagar í Haukum þurfa aðeins einn sigur í viðbót til að verða deildarmeistarar. vísir/hulda margrét

Fram tók á móti Haukum í 19. umferð Olís-deildar karla í dag. Hörkuleikur en Haukar sigldu fram úr á síðustu mínútunum. Lokatölur 29-35.

Það var mikið í húfu fyrir Framara, með sigri myndu Fram ná aftur 8. sætinu og styrkja stöðu sína í að fá sæti í úrslitakeppninni. Fyrir Hauka var þetta að fá fleiri fingur á deildarmeistaratitilinn.

Fyrri hálfleikur byrjaði af krafti og Framarar tóku forystuna til að byrja með. Eftir um 10 mínútna leik rönkuðu Haukar betur við sér og komu sér í tveggja marka forystu, 4-6.

Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram tekur þá leikhlé í stöðunni 5-7 og reynir að stappa í sína menn stálinu. Það tókst og náðu Framarar að minnka muninn niður í 1 mark.

Haukar fara illa með síðustu sókn sína í fyrri hálfleik. Vilhelm Poulsen skorar fyrir fram og minnkar muninn í eitt mark. Hálfleikstölur 15-16. 

Bæði lið mættu ákveðin til seinni hálfleik og var jafnræði með liðunum allt fram á 50. mínútu. 

Það var orðið heldur hátt spennustig hjá báðum liðum og litaðist seinni hálfleikurinn af því. Illa farið með ágætisfæri og klaufskapur hjá báðum liðum. 

Haukar hrukku hinsvegar aftur í gírinn þegar 10 mínútur voru eftir og nýttu sér mistök Framara. Lokatölur 29-35. 

Afhverju unnu Haukar?

Haukar eru bara gríðarlega erfiðir andstæðingar.  Það var smá andleysi yfir þeim í byrjun leiks og voru þeir farnir á tímabili að lesa yfir hvorum öðrum. Haukaliðið er massíft og þeir ná sér alltaf á strik þrátt fyrir að vera í basli. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Fram var það Vilhelm Poulsen sem var með sjö mörk. Andri Már Rúnarsson var með sex mörk. 

Hjá Haukum voru það Stefán Rafn Sigurmannsson og Adam Haukur Baumruk sem voru atkvæðamestir með sex mörk hvor. 

Hvað gekk illa?

Varnarleikur beggja liða var ekki nógu góður. Bæði lið voru með rétt um tuttugu prósent markvörslu, sem er yfirleitt afleiðing af lélegum varnarleik. 

Hvað gerist næst?

Sunnudaginn 16. maí sækir Fram, Selfoss heim kl 14.00.

Á mánudaginn 17. maí verður Hafnarfjarðarslagur á Ásvöllum þar sem Haukar fá FH í heimsókn kl 18.00.

Sebastian: Ég er ekkert óánægður með þetta

„Ég er ekkert óánægður með þetta. Við erum að máta okkur við langbesta liðið í deildinni og gefa þeim leik í 54 mínútur. Við spiluðum líka vel á móti þeim í fyrri leiknum en þetta er bara munurinn,“ sagði Sebastian, þjálfari Fram, eftir tap á móti Haukum. 

Sebastian var sáttur með sína menn og hrósaði þeim hástert eftir leikinn. 

„Ég er ótrúlega stoltur af leikmönnunum, hversu mikla vinnu þeir hafa lagt í það í vetur að klifra úr því að vera þar sem þeir hafa verið síðustu ár í það að vera samkeppnishæf við nánast öll liðin í deildinni, jafnvel Hauka. Það sem ég tek út úr þessu er hversu nálægt við erum því að Fram verði eitt af bestu liðum landsins.“

Jafnræði var með liðunum alveg fram á 55. mínútu þegar Haukar tóku forystuna. 

„Þeir eru bara svo massífir og það fer svo mikil orka í að berjast við þá. Þegar að skytturnar þeirra hitta á svona dag þá verðum við að fara út og þá opnast fyrir tröllin a línunni. Svo ef við ætlum að loka á þá, þá eru þeir bara að skjóta í vínklanna og stöngin inn. Það er erfitt að finna leið, við reyndum ýmislegt en þeir voru of góðir fyrir okkur í dag.“

Fram sækir Selfoss heim í næstu umferð og það var ekki mikið sem Basti vildi laga fyrir þann leik.

„Ég vona að við náum svona frammistöðu í næsta leik. Og við náum þessari frammistöðu í öllum leikjunum sem eftir eru, þá hef ég engar áhyggjur að ná í stigin sem við þurfum til að ná í átta liða úrslit,“ sagði Sebastian að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira