Körfubolti

Baldur: Þurfum klárlega að vera betri en þetta

Smári Jökull Jónsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson var ósáttur með sína menn í tapinu gegn Grindavík í kvöld
Baldur Þór Ragnarsson var ósáttur með sína menn í tapinu gegn Grindavík í kvöld vísir/bára

„Þetta var áframhald frá síðasta leik gegn Keflavík þar sem við erum bara flatir og í raun eins og menn séu bara að bíða eftir því að tímabilið klárist" sagði Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Tindastóls eftir tap liðsins gegn Grindavík í Domino´s deildinni í kvöld.

Grindvíkingar leiddu leikinn allan tímann í dag og þó svo að Stólarnir hafi gert tilraunir til að minnka muninn þannig að spenna færðist í leikinn þá virtust heimamenn alltaf hafa tök á aðstæðum.

„Ég er mjög ósáttur með frammistöðuna í leiknum. Heilt yfir vorum við flatir varnarlega og það vantar allan takt í þetta. Ég efast um að nokkur maður geti litið í eigin barm og sagt að þetta hafi verið hans leikur. Það þarf að finna lausnir á þessu."

Það hefur sýnt sig í deildinni í vetur að hlutirnir eru fljótir að breytast og einn sigur getur komið mönnum á rétt spor. Stólarnir eru ekki í takti og það á slæmum tíma, rétt áður en úrslitakeppnin hefst.

„Við höfum verið að gera ákveðna hluti vel, höfum verið í vandræðum sóknarlega tvo leiki í röð. Við þurfum að fara aftur í það sem við vorum að gera vel í þessum leikjum gegn Hetti, Þór Akureyri og Þór frá Þorlákshöfn þar sem við vorum að skora stig."

„Að sama skapi þurfum við að gera betur varnarlega í að átta okkur að aðstæðum og sjá þeirra hreyfingar fyrr í stað þess að bregðst við einni sekúndu of seint. Þá eru þeir að komast djúpt og við í vandræðum. Við þurfum klárlega að vera betri en þetta," sagði Baldur Þór að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.