Körfubolti

Misstu Giannis af velli en tókst að halda sigurgöngunni áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo fór af velli með sex villur þegar 1 mínúta og 54 sekúndur voru eftir að leiknum en liðsfélagarnir lönduðu sigrinum án hans.
Giannis Antetokounmpo fór af velli með sex villur þegar 1 mínúta og 54 sekúndur voru eftir að leiknum en liðsfélagarnir lönduðu sigrinum án hans. AP/Morry Gash

Milwaukee Bucks vann sinn fjórða leik í röð í NBA deildinni í körfubolta í nótt þrátt fyrir stórleik hjá tveimur mönnum hjá mótherjunum.

Jrue Holiday skoraði 29 stig fyrir Milwaukee Bucks í 135-134 sigri á heitu liði Washington Wizards sem tapaði aðeins í fjórða sinn í síðustu sautján leikjum.

Wizards liðið fékk 43 stig frá Bradley Beal og þrennu frá Russell Westbrook (29 stig, 17 stoðsendingar, 12 fráköst) en það dugði ekki til.

Giannis Antetokounmpo fékk líka sína sjöttu villu þegar 1:54 voru eftir af leiknum og Bucks 127-124 yfir. Bucks liðið var líka án Khris Middleton sem lék ekki vegna meiðsla. Giannis var með 23 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar á 30 mínútum áður en hann villaði útaf.

Þeir fundu leið til að vinna án þeirra á lokakaflanum þar sem Pat Connaughton skoraði meðal annars tvo þrista á síðustu 90 sekúndunum. Connaughton skoraði alls 16 stig og Donte DiVincenzo var með 19 stig.

Kemba Walker lék aftur með Boston Celtics eftir fjarveru vegna meiðsla og kom aftur með látum. Walker skoraði 32 stig í 132-96 sigri Boston liðsins á Orlando Magic. Jayson Tatum skoraði 27 stig og Evan Fournier var átján stig á móti sínum gamla félagi.

Þetta var fyrsti leikur Kemba í níu daga en hann hitti úr 11 af 18 skotum þar af 6 af 9 fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði þessi 32 stig á aðeins 28 mínútum.

Damian Lillard skoraði 32 stig og gaf 9 stoðsendingar þegar Portland Trail Blazers vann 141-105 sigur á Cleveland Cavaliers. Trail Blazers vann 5 af 6 leikjum í þessari útileikjaferð sinni en liðið er í harðri baráttu við Mavericks og Lakers um fimmta sætið í Vesturdeildinni.

Clint Capela fór fyrir jöfnu liði Atlanta Hawks sem vann 135-103 sigur á Phoenix Suns eftir að hafa unnið lokaleikhlutann 38-15. Capela skoraði átján stig, Trae Young var með 16 stig og 12 stoðsendingar en alls skoruðu sjö leikmenn liðsins frá 13 stig 18 stigum.

Devin Booker skoraði 30 stig fyrir Phoenix liðið sem var búið að vinna fimm leiki í röð fyrir leikinn. Liðið datt einum sigri á eftir Utah Jazz í baráttunni um toppsætið í Vesturdeildinni (og allri NBA) því Utah burstaði San Antonio Spurs 126-94 í nótt. Jordan Clarkson var með 30 stig fyrir Jazz liðið og Bojan Bogdanovic skoraði 24 stig.

Joel Embiid var með 34 stig og 12 fráköst á aðeins 25 mínútum þegar Philadelphia 76ers vann sinn sjötta leik í röð með því að vinna Houston Rockets 135-115 á útivelli. 76ers er í efsta sætinu í Austurdeildinni en Houston er með slakasta árangurinn í deildinni.

Nikola Jokic skoraði 24 af 32 stigum sínum í fyrsta leikhluta þegar Denver Nuggets kældi niður sjóðheitt lið New York Knicks með 113-97 sigri.

Úrslitin í NBA deildinni í nótt:

  • Milwaukee Bucks - Washington Wizards 135-134
  • Orlando Magic - Boston Celtics 96-132
  • Cleveland Cavaliers - Portland Trail Blazers 105-141
  • Atlanta Hawks - Phoenix Suns 135-103
  • Indiana Pacers - Sacramento Kings 93-104
  • Houston Rockets - Philadelphia 76ers 115-135
  • Utah Jazz - San Antonio Spurs 126-94
  • Minnesota Timberwolves - Memphis Grizzlies 135-139
  • Denver Nuggets - New York Knicks 113-97
NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.