Handbolti

Með 27 mörk í síðustu tveimur leikjum: Besta frammistaðan síðan í Hjartasteini

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blær Hinriksson hefur verið óstöðvandi í síðustu tveimur leikjum Aftureldingar.
Blær Hinriksson hefur verið óstöðvandi í síðustu tveimur leikjum Aftureldingar. vísir/hulda margrét

Sennilega hefur enginn leikmaður Olís-deildar karla komið betur undan hléinu sem gert var vegna kórónuveirufaraldursins og Blær Hinriksson. Hann hefur skorað samtals 27 mörk í síðustu tveimur leikjum Aftureldingar.

Blær skoraði þrettán mörk þegar Afturelding laut í lægra haldi fyrir Haukum í gær, 33-25. Hann fylgdi þar með eftir fjórtán marka frammistöðu sinni í 35-33 tapinu fyrir Stjörnunni í fyrsta leik Aftureldingar eftir hléið.

Samtals hefur Blær því skorað 27 mörk í síðustu tveimur leikjum Mosfellinga. Og það úr aðeins 33 skotum. Það gerir 82 prósent skotnýtingu sem er lygilega góð fyrir útispilara.

Í leiknum gegn Stjörnunni skoraði Blær helming marka sinna, eða sjö, af vítalínunni. Í gær komu aðeins fjögur mörk af vítalínunni. Í leikjunum tveimur hefur hann aðeins klikkað á einu víti, því fyrsta gegn Stjörnunni. Síðan þá hefur hann skorað úr ellefu vítum í röð.

Mörk Blæs í leikjunum gegn Stjörnunni og Haukum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Mörk Blæs gegn Stjörnunni og Haukum

Auk markanna 27 hefur Blær gefið sex stoðsendingar í síðustu tveimur leikjum Aftureldingar og því komið með beinum hætti að 33 af 58 mörkum liðsins.

Úrslitin hafa vissulega ekki verið hagstæð fyrir Aftureldingu eftir hléið en það er lítið við Blæ að sakast.

Blæ hafa ekki haldið nein bönd í síðustu tveimur leikjum Aftureldingar.vísir/hulda margrét

Í ellefu leikjum fyrir síðasta hléið skoraði Blær samtals 53 mörk. Þau eru nú alls orðin áttatíu og Blær hefur klifrað hratt upp listann yfir markahæstu leikmenn Olís-deildarinnar. Hann er núna í 10.-11. sæti markalistans.

Blær þreytti frumraun sína í Olís-deildinni með HK á síðasta tímabili. Hann lék ekki mikið vegna meiðsla en skoraði samt 5,1 mark að meðaltali í leik. Skotnýtingin var þó aðeins 47 prósent en núna er hún 65 prósent.

Hinn nítján ára Blær gekk í raðir Aftureldingar í sumar og hefur fengið mikla ábyrgð og stórt hlutverk í þeim miklu meiðslum sem hafa dunið á liðinu. Og það er óhætt að segja að hann hafi staðið undir ábyrgðinni.

Blær ásamt Baldri Einarssyni, mótleikara sínum í Hjartasteini.getty/Jalal Morchidi

Margir kannast eflaust við Blæ úr kvikmyndinni Hjartasteini frá 2016. Myndin fékk afar góðar viðtökur og Blær fékk Edduverðlaun fyrir frammistöðu sína í henni.

Segja má að leiklistin sé Blæ í blóð borin. Faðir hans, Hinrik Ólafsson, er þekktur leikari og föðurbróðir hans er sjálfur Egill Ólafsson.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×