Körfubolti

„Höfum enn svigrúm til að verða betri“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Jónas Sigurðsson tók við Val fyrir tímabilið.
Ólafur Jónas Sigurðsson tók við Val fyrir tímabilið. vísir/bára

„Þessu markmiði er náð sem er frábært. Við eigum einn deildarleik eftir sem við ætlum að klára og svo getum við farið að einbeita okkur að úrslitakeppninni,“ sagði Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, í samtali við Vísi eftir að liðið tryggði sér deildarmeistaratitilinn í Domino‘s deild kvenna með 86-62 sigri á Snæfelli í kvöld.

Ólafur kvaðst sáttur með frammistöðu Valskvenna í kvöld. Þær voru mun sterkari aðilinn í leiknum og náðu mest þrjátíu stiga forskoti.

„Ég var mjög ánægður með frammistöðuna. Mér fannst stelpurnar einbeittar og klárar í verkefnið gegn baráttuglöðu Snæfellsliði. Þetta er nákvæmlega það sem við þurfum, að vera klárar í alla leiki,“ sagði Ólafur.

Hann er ánægður með ganginn í Valsliðinu þessa dagana. Valskonur hafa unnið síðustu sex leiki sína og virðast vera klárar fyrir úrslitakeppnina sem hefst innan tíðar.

„Það hefur verið stígandi í okkar leik og mér finnst við vera að spila eins vel og við höfum gert í vetur. En við vitum að við getum enn spilað betur. Við höfum enn svigrúm til að verða betri,“ sagði Ólafur.

Þjálfarinn bætti við að Valsliðið þyrfti að spila betur til að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

„Að sjálfsögðu. Þetta verður bara harðara og harðara núna. Það er stutt síðan við spiluðum gegn Fjölni og Haukum og það eru hörkulið. Svo spilum við gegn Keflavík á laugardaginn og það er líka hörkulið. Þannig að við þurfum að spila betur og það er stefnan,“ sagði Ólafur að endingu.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.