Skoðun

Mikil­vægi banda­rískra ferða­manna

Björn Berg Gunnarsson skrifar

Bandaríkin eru sennilega okkar mikilvægasta viðskiptaþjóð hvað ferðaþjónustu og þar með gjaldeyrisöflun varðar. Það eru því kærkomnar fréttir hve ljómandi vel bólusetningar þar í landi virðast ganga, en yfir helmingur allra fullorðinna Bandaríkjamanna hefur nú fengið í það minnsta eina gusu af bóluefni gegn COVID-19. Nemur það ríflega fimmtungi allra þeirra sem bólusettir hafa verið gegn veirunni á heimsvísu. Standist áætlanir þar í landi um að öllum fullorðnum hafi boðist bólusetning fyrir lok júnímánaðar má því búast við að ferðaþyrst þjóðin sé þegar farin að líta í kringum sig.

Af leitarvélagögnum að dæma hefur áhugi á Íslandi aukist til muna undanfarnar vikur og samkvæmt könnun Íslandsstofu var hlutfall Bandaríkjamanna sem líklegt taldi að landið yrði sótt heim innan sex mánaða mun hærra en meðal annarra þjóðerna sem spurð voru.

Dýrmætir gestir

Í aðdraganda kórónuveirufaraldursins hafði hlutfall Bandaríkjamanna hækkað umtalsvert meðal ferðamanna hér á landi. Árið 2011 voru þeir 11% gesta okkar en hlutfallið náði 30% árið 2018. Þarlendir ferðamenn dvöldu þá að meðaltali 17% skemur hér á landi en ferðamenn almennt en voru hins vegar duglegir að taka upp veskið en einungis Kínverjar eyddu hér hærri fjárhæðum dag hvern meðan á dvöl þeirra stóð. Nam eyðsla þeirra 45.000 krónum daglega á verðlagi dagsins í dag, samanborið við 30.000 króna útgjöld Frakka og Þjóðverja svo dæmi séu tekin. Þrátt fyrir að eyða hér miklu hafa Bandaríkjamenn virst nokkuð sáttir við verðlagið hér á landi og voru til að mynda allra þjóða ánægðastir með virði ferðar sinnar og verðlag þegar slíkt var kannað árið 2016.

Góður gangur í bólusetningum vestanhafs og áhugi þarlendis á Íslandi samhliða því að vonandi fer að rofa til í samkomutakmörkunum hérlendis eru kærkomin tíðindi. Bandarískir ferðamenn hafa ekki einungis verið duglegir að sækja okkur heim heldur eru tekjur af hverjum og einum þeirra umtalsverðar. Því er til mikils að vinna gangi vel að selja þeim ferðir hingað til lands á næstu mánuðum, eins og heyrst hefur frá ferðaþjónustuaðilum að undanförnu.

Höfundur er deildarstjóri Greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.