Handbolti

Auglýsir eftir eiginkonu á leiknum við Ísland

Sindri Sverrisson skrifar
Opinijus birtir þessa mynd á Instagram-síðu sinni, á baðtöflum í snjónum. Þegar Bjarki Már Elísson og félagar mæta Litáen í kvöld gæti auglýsing frá Opinijus vakið athygli.
Opinijus birtir þessa mynd á Instagram-síðu sinni, á baðtöflum í snjónum. Þegar Bjarki Már Elísson og félagar mæta Litáen í kvöld gæti auglýsing frá Opinijus vakið athygli. @Opinijus og EPA

Íslenska karlalandsliðið í handbolta getur tryggt sér sæti á EM með sigri á Litáen í Vilnius í kvöld. Leikurinn gæti hins vegar einnig borið annars konar ávöxt.

Í tilkynningu frá handknattleikssambandi Litáens kemur fram að ónefndur aðili hafi keypt auglýsingapláss á leiknum í kvöld. Þar auglýsir hann eftir eiginkonu.

Umræddur piparsveinn kallar sig Opinijus á Instagram og þar er væntanlega best að komast í samband við hann, fyrir áhugasamar.

Donatas Pasvenskas, formaður litáenska handknattleikssambandsins, segir að á meðan að fyrirtæki, sem meiri venja sé fyrir að kaupi auglýsingar, haldi að sér höndum þurfi að leita annarra leiða. Körfubolti er langvinsælasta íþróttin í Litáen en erfiðlegar hefur gengið að fá fjárhagslegan stuðning í handboltanum.

„Gifstu mér“

Þess vegna ákvað Opinijus, sem mun vera mikill stuðningsmaður litáenska handboltans, að láta til sín taka og kaupa tvenns konar auglýsingar. Í annarri segir „Í leit að eiginkonu“ og í hinni segir „Gifstu mér“. Auglýsingarnar eru á ensku enda leikurinn ekki bara sýndur í Litáen heldur líka á Íslandi og fyrir allra augum á EHFTV.com.

Þó að Opinijus kaupi auglýsingarnar til að styrkja handboltasambandið biður hann fólk að velkjast ekki í vafa um það að hann sé í alvörunni í leit að eiginkonu. Miðað við hvað leikurinn sé sýndur víða sé hann bjartsýnn á að fjárfestingin borgi sig.

Ísland er í frábærri stöðu í undankeppni EM og nánast búið að tryggja sér sæti í lokakeppninni, sem fram fer í janúar að vanda. Ísland þarf hins vegar að vinna Litáen í kvöld og Ísrael á sunnudaginn til að tryggja sér efsta sæti riðilsins, og þar með stöðu í efri styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir mótið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.