Umfjöllun: Ísrael - Ísland 20-30 | Komnir á toppinn eftir öruggan sigur í Tel Aviv

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk í sínum 150. landsleik.
Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk í sínum 150. landsleik. vísir/vilhelm

Ísland tyllti sér á topp riðils 4 í undankeppni EM 2022 með stórsigri á Ísrael, 20-30, í Tel Aviv í kvöld.

Íslenska liðið leiddi allan leikinn og sigurinn var feykilega öruggur. Staðan í hálfleik var 9-17, Íslendingum í vil. 

Íslenska liðið heldur núna til Vilníus í Litáen þar sem það mætir heimamönnum á fimmtudaginn. Undankeppninni lýkur svo með leik gegn Ísrael á Ásvöllum á sunnudaginn. Með sigri í öllum þremur leikjunum tryggir Ísland sér efsta sætið í riðlinum.

Ellefu leikmenn Íslands komust á blað í leiknum í kvöld. Elvar Örn Jónsson, Viggó Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon voru markahæstir með fimm mörk hver. Sigvaldi Guðjónsson skoraði fjögur mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson varði vel, tíu skot (fjörutíu prósent), og Ágúst Elí Björgvinsson enn betur, eða níu af þeim fjórtán skotum sem hann fékk á sig (64 prósent).

Íslenska liðið spilaði leikinn af mikilli fagmennsku og frammistaðan var heilt til fyrirmyndar. Vörnin var gríðarlega öflug fyrir utan nokkra stutta kafla og markvarslan var frábær.

Íslendingar keyrðu hratt fram í upphafi leiks en nokkuð hægðist á leiknum eftir því sem á hann leið og hraðaupphlaupunum fækkaði. Full mörg dauðafæri fóru í súginn en það var aldrei nálægt því að koma að sök gegn frekar slöku ísraelsku liði.

Kröftug byrjun

Íslenska liðið gaf strax tóninn með öflugum varnarleik og vel útfærðum hröðum sóknum. Ísland skoraði þrjú fyrstu mörkin og á 14. mínútu kom Elvar Örn íslenska liðinu sjö mörkum yfir, 3-10.

Þá hrökk íslenski sóknarleikurinn í smá baklás og fjórar sóknir í röð fóru í súginn. Ísraelar náðu þó aldrei að minnka muninn í minna en fimm mörk, 8-13.

Ísland svaraði með fjórum mörkum í röð en Yonatan Dayan minnkaði muninn í átta mörk, 9-17, með síðasta marki fyrri hálfleiks. Viktor var frábær í fyrri hálfleiknum, sérstaklega seinni hluta hans, og varði sjö skot (47 prósent). Ómar Ingi var markahæstur Íslendinga í hálfleik með fimm mörk.

Sígandi lukka í vörninni

Íslenska vörnin var nokkuð lengi í gang í byrjun seinni hálfleiks og Ísrael skoraði fimm mörk á fyrstu átta mínútum hans. Heimamenn skoruðu hins vegar aðeins sex mörk á síðustu 22 mínútum seinni hálfleiks.

Viggó átti góða innkomu í stöðu hægri skyttu og skoraði þrjú af fyrstu fjórum mörkum Íslands í seinni hálfleik.

Vörnin þéttist mjög eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og smám saman jókst munurinn. Aron Pálmarsson, sem lék sinn 150. landsleik í kvöld, kom Íslandi í fyrsta sinn tíu mörkum yfir, 15-25, þegar fjórtán mínútur voru eftir.

Guðmundur Guðmundsson skipti mikið í seinni hálfleik og allir leikmenn á skýrslu spiluðu slatta. Ellefu af fjórtán útileikmönnum skoruðu í leiknum.

Mestur varð munurinn ellefu mörk, 19-30, en á endanum munaði tíu mörkum á liðunum, 20-30.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.