Handbolti

Patrekur: Bjöggi átti stórkostlegan leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrekur Jóhannesson var himinlifandi með sóknarleik Stjörnunnar gegn Aftureldingu.
Patrekur Jóhannesson var himinlifandi með sóknarleik Stjörnunnar gegn Aftureldingu. vísir/elín björg

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var kátur eftir sigurinn góða á Aftureldingu í kvöld. Lokatölur 35-33 í miklum markaleik.

„Sóknarleikurinn var frábær og margir að spila vel. Bjöggi [Hólmgeirsson] átti stórkostlegan leik og sýndi hvað hann er ógeðslega öflugur leikmaður. Starri [Friðriksson] var með tíu mörk og sóknin var flott,“ sagði Patrekur við Vísi eftir leik.

„Ég er ánægður með það og líka með orkuna í liðinu. Strákarnir eru í standi. En vörnin var slök og markvarslan ekkert sérstök. Við unnum þetta á sóknarleiknum og ég er hrikalega ánægður með sigurinn og strákana.“

Patrekur vonast til að varnarleikur Stjörnunnar verði betri í næstu leikjum liðsins.

„Ef maður kíkir á úrslitin eftir þessa síðustu pásu er eins og vörnin sé vandamál hjá mörgum. Það er mikið skorað og gott sjónvarp. En það verður held ég ekki mikið vandamál. Við lögum vörnina,“ sagði Patrekur.

Hann var að vonum hæstánægður með frammistöðu Björgvins í leiknum í kvöld.

„Þetta var framhald af KA-leiknum þar sem hann var stórkostlegur. Þá stýrði hann liðinu rosalega vel, fór eftir skipulagi, og sá svo augnablikin þegar hann átti að fara í árásirnar. Sama í dag. Hann er ótrúlega öflugur þessi strákur og hefur æft mjög vel. Hann kom seint inn í þetta hjá okkur en Bjöggi er frábær handboltamaður og persóna,“ sagði Patrekur að lokum.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×