Skoðun

Krakkarnir sem krefjast lækkunar kosningaaldurs

Unnur Erna Viðarsdóttir, Telma Ósk Þórhallsdóttir, Kristrún Bára bragadóttir, Ronja Halldórsdóttir og Egill Ö. Hermannsson skrifa

Um árabil hefur komið upp sú hugmynd í þjóðfélaginu að lækka kosningaaldur niður í 16 ár. Í gegnum tíðina hefur alls kyns fólk þurft að berjast fyrir réttinum til þess að kjósa. Við lærum í skólanum um það þegar barist var fyrir kosningarétti kvenna, fátækra og ungs fólks. Nú er komið að því að kosningaaldurinn verði lækkaður úr 18 í 16 ára aldur í öllum kosningum og að miðað sé við fæðingarár en ekki fæðingardag.

Ungt fólk til valda

Unnur Erna Viðarsdóttir er í Ungmennaráði Strandabyggðar.

Við viljum styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur. Með því að lækka kosningaaldur í 16 ár nær kosningarrétturinn til tveggja árganga fólks sem enn nýtur verndar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það að þau megi kjósa er í anda barnasáttmálans sem tryggir börnum rétt til að tjá skoðanir sínar í öllum málum er þau varða.

Þetta getur líka gefið skólum tækifæri að kenna nemendum um pólitík. Það eru margir skólar á landinu þar sem er ekki kennt neitt um pólitík og það gæti verið ástæðan fyrir því af hverju sumt ungt fólk hefur minni áhuga á kosningum og vita ekki endilega mikið um þær. Það verður alltaf einhver hópur ungs fólks sem hefur ekki áhuga á kosningum og stjórnmálum sem og öðrum hópum eldra fólks.

Kosningaþátttaka hjá fólki undir 40 ára er miklu lægri en hjá eldra fólki. Þjóðin er að eldast og því skiptir máli að sem flestir kjósendur láti sig málefni ungs fólks varða og þar með málefni framtíðarinnar. Ótal samfélagshreyfingar undanfarin ár sýna það að ungt fólk vill breyta samfélaginu. Sem dæmi má nefna #FreeTheNipple, #ÉgErEkkiTabú og Loftslagsverkföllin. Ungmennaráð Samfés, Ungmennaráð UMFÍ Landssamband ungmennafélaga o.fl. hafa kallað eftir lækkun kosningaaldurs. Stjórnmálin þurfa að vera vettvangur fyrir þetta unga fólk.

Við 16 ára aldur byrjar fólk að greiða skatt

Telma Ósk Þórhallsdóttir er í Ungmennaráði Akureyrarbæjar.

Við 16 ára aldur byrjar fólk að greiða skatt til ríkis og sveitarfélaga án þess að þau hafi aðkomu að velja þá fulltrúa sem hafa með höndum ráðstöfun skattfjárssins, líkt og allir aðrir skattgreiðendur 18 ára og eldri. Það getur varla talist boðlegt í nútímasamfélagi. Sérstaklega ef gengið er út frá þeim reglum og samningum sem Ísland hefur tekið þátt í, t.d. Barnasáttmálanum og Jafnræðisreglu Stjórnsýslulaganna, eins ber að gæta meðalhófs. Samkvæmt Jafnræðisreglunni er óheimilt að mismuna fólki vegna m.a. uppruna, efnahags, kynþáttar, aldurs, o.s.frv. Það sama má segja um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en greinar 12., 13. og 14. fjalla allar um skoðana-, hugmynda- og trúfrelsi. Þrátt fyrir að þessar reglur séu til staðar er verið að mismuna ungum skattgreiðendum. Þau njóta hreinlega ekki sömu réttinda og aðrir skattgreiðendur. Ofan á það er enginn af 63 alþingismönnum undir 30 ára aldri, það jafngildir 12 árum á milli yngsta alþingismanns og yngsta mögulega kosningahóps og 14 ár að yngstu skattgreiðendum. Þetta er ekki jafnrétti og ætti ekki að viðgangast í ríki eins og Íslandi.

Hvað varðar kosningaaldurinn hér á Íslandi þá er hann alls ekki heilagur, langt því frá. Það er ekkert í lögum Íslands sem segja til um að sjálfræðis- og kosningaaldur þurfi að vera einn sá sami, líkt og ekkert segir um að kosningaaldur og framboðsaldur í forsetakosningum þurfi að vera sá sami. Sú hugmynd um að sjálfræðis- og kosningaraldurinn sé sá sami er tiltölulega nýleg hugmynd hér á landi þar sem núgildandi reglur um kosningaaldur voru teknar upp árið 1997. 18. aldursárið er einnig ekki alráðandi. Við byrjum að greiða skatta þegar við verðum 16 ára en jafnvel fyrir þann aldur er ungu fólki gefin ábyrgð, t.d. á 15. ári verður ungt fólk sakhæft, verður sjálfstætt í barnaverndarmálum og geta skráð sig í stjórnmálaflokka sem fullgildur félagi. Einnig hefur það sannað sig í verkefninu “Betri Reykjavík” að 16 ára kosningaaldur leiði frekar til góðs en slæms. Á endanum var kosningaaldurinn lækkaður niður í 15 ár vegna velgengni verkefnisins.

Haldi kosningaaldur áfram að miða við 18 ár er hætta á að frambjóðendur, bæði í sveitarstjórnar- og alþingiskosningum, fari að líta á sjálfsráða fólk sem sína einu umbjóðendur og hagsmunir barna gætu skerst.

Fræðsla

Ronja Halldórsdóttir er í Ungmennaráði Hafnarfjarðar.

Þegar verið er að ræða lækkun kosningaaldurs eru algengustu rökin sem notuð eru gegn því þau að 16 og 17 ára einstaklingar þekki stjórnmál ekki nógu vel, hafi lítinn áhuga á þeim eða séu ekki nógu þroskaðir og kjósi þess vegna það sama og foreldrar þeirra. Lausnin á þessu vandamáli er augljós: aukin fræðsla um stjórnmál og hvernig þau snerta líf ungmennanna í grunnskólum.

Frekari kynningar á ríkis- og bæjarstjórn og stjórnmálaflokkunum vekur sjálfstæðar skoðanir þessara einstaklinga. Ef kosningaaldur verður lækkaður niður í 16 ár þurfa grunnskólar að taka sig á í að fræða unga fólkið í elstu bekkjunum. Þetta þurfa ekki að vera róttækar breytingar heldur einfaldar innleiðingar, umræður innan bekkja sem munu að sjálfsögðu skapast við lækkunina á kosningaaldri. 

Kennarar í efstu bekkjum eru flestir mjög opnir fyrir nýju námsefni og verða fljótir að taka við sér. Aukin fræðsla myndi styrkja börn í að taka sjálfstæða afstöðu til stjórnmála. Hvort sem kosningaaldur verði lækkaður eða ekki þarf að efla lýðræðisfræðslu ungs fólks. Það að geta myndað sér skoðun, skilið grundvallaratriðin í stjórnmálum og vita að þú hefur eitthvað að segja um hvernig samfélaginu er stjórnað eru gríðarlega mikilvægir þættir sem ættu að tilheyra fræðslu grunnskóla. Á grunnskólastigi er skólaskylda og líklegra að allir taki þátt sem hópur og haldi áfram að nýta kosningarétt sinn út lífið.

Kristrún Bára Bragadóttir er í Ungmennaráði Hafnarfjarðar.

Ef kosningaaldur verður lækkaður munu flokkarnir og fólk í framboði átta sig á mikilvægi unga fólksins og mögulega beina frekari athygli að þeim málefnum sem ungmennum þykja mikilvæg. Það að kosningaaldur sé lækkaður þýðir ekki að málefnum fullorðinna sé þröngvað á börn heldur er líklegt að ungir kjósendur kjósi eins og hver annar kjósandi. Þ.e.a.s. eru ungir kjósendur líklegir til þess að kjósa eftir málefnum sem þeir brenna fyrir. Ungmenni eru klár og vilja taka þátt í að bæta umhverfið sitt. Það þarf ekki mikið til að aðstoða þau að skilja hvernig þau geta gert það og ef einhver ungmennin treysta sér ekki að kjósa þá er mikilvægt að muna að þetta réttur en ekki skylda.

Fyrri reynsla

Góð reynsla hefur verið af lækkun kosningaaldurs í öðrum löndum. Í Austurríki stórjók lækkun kosningaaldurs stjórnmálaáhuga ungs fólks. Kosningaaldurinn hefur nú þegar á einhvern máta verið lækkaður í Skotlandi, Möltu, Þýskalandi, Bandaríkjunum, Noregi, Eistlandi, Brasilíu, Serbíu o.fl. Kjósendur sem kjósa í fyrsta sinn 16 eða 17 ára eru líklegri til þess að kjósa í sínum fyrstu kosningum en 18 og 19 ára kjósendur. 

Enn fremur er kjósandi sem kýs í sínum fyrstu kosningum 16 eða 17 ára líklegri til þess að kjósa aftur í þeim næstu en kjósandi sem kýs fyrst 18 eða 19 ára. 16 og 17 ára einstaklingar hafa einnig jafn mikinn áhuga á pólitík og eldra fólk, vita jafn mikið um pólitík og eru jafn hæfir til þess að kjósa. Með því að sýna ungu fólki að því sé treyst til að taka stórar ákvarðanir byggist vonandi upp gagnkvæmt traust á stjórnmálunum. Valdefling ungs fólks og aukinn þáttur þess í ákvarðanatöku er af hinu góða og þótt kosningaaldur sé engin stök töfralausn þá getur hann verið mikilvægur þáttur í átaki þess efnis.

Egill Ö. Hermannsson er í Ungmennaráði Árborgar.

Að lokum

Breytingar á kosningaaldri hafa verið lagðar til nokkrum sinnum á undanförnum árum. Lengst náði málið á 148. löggjafarþingi (2017-2018), en þá náðist ekki að ljúka þriðju og síðustu umræðu til að greiða endanlega atkvæði um frumvarpið. Fulltrúar úr nær öllum flokkum lögðust á eitt og þingmenn Samfylkingar, Miðflokks, Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks, Pírata, Viðreisnar og Framsóknarflokks studdu tillöguna.

Nú hafa þingmenn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata lagt fram frumvarp sem ef samþykkt myndi veita öllu íslensku fólki á aldrinum 16 til 17 ára kosningarétt í öllum kosningum. 16 og 17 ára einstaklingar vilja kjósa, hafa getu til að kjósa, hafa áhuga á því að kjósa, hafa vit til þess að kjósa og eru líklegri til þess að kjósa aftur ef þeir kjósa fyrst 16 eða 17 ára. Aðeins með því að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ár mun ungt fólk loks fá eigin fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnir.

Við skorum á Alþingi allra Íslendinga að samþykkja þetta frumvarp.

Höfundar eru meðlimir ungmennaráða Akureyrarbæjar, Hafnarfjarðar, Strandabyggðar og Sveitarfélagsins Árborgar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.