Handbolti

„Basti elskar líka að koma öllum á óvart“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastian Alexandersson, er litríkur þjálfari sem er alltaf tilbúinn að prófa eitthvað nýtt og spennandi.
Sebastian Alexandersson, er litríkur þjálfari sem er alltaf tilbúinn að prófa eitthvað nýtt og spennandi. Vísir/Daníel Þór

Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, stýrði liðinu til sigurs í sjöunda sinn á tímabilinu í Olís deildinni í síðustu umferð en Seinni bylgjan ræddi nýjungar hans í leiknum.

„Við elskum Basta og Basti elskar líka að koma öllum á óvart og bjóða upp á eitthvað nýtt. Þetta bauð hann okkur upp á í kvöld,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar, í upphafi umræðunnar um Sebastian Alexandersson og Fram.

En hvaða tilraunastarfsemi var í gangi hjá Sebastian Alexanderssyni í sigurleiknum á móti ÍR?

„Það var að spila menn sex manns fyrir utan. Einar Andri þetta sjáum við ekki oft,“ spurði Henry Birgir.

„Nei, ég man ekki eftir þessu og þeir gerðu þetta skemmtilega. Það má reyndar setja mörg spurningarmerki við varnarleik ÍR hérna,“ sagði Einar Andri Einarsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

Klippa: Seinni bylgjan: Sebastian prófar nýja leikaðferð

„Þér hlýtur bara að bregða við að sjá þetta,“ sagði Henry Birgir léttur.

„Það var skemmtilegt að sjá þetta og gaman að sjá eitthvað nýtt. Ég er ekki viss um að ÍR-ingarnir verði ánægðir þegar þeir skoða þetta á myndbandi. Þetta er tiltölulega einfalt að leysa en þetta sýndi gott hugmyndaflug og þetta var mjög góð taktík,“ sagði Einar Andri.

„Það voru líka alls konar útfærslur á þessu og þetta var ekki það sama. Basti er nýjungagjarn og vill prófa nýja hluti. Maður spyr sig hvort hann hefði gert þetta á móti Val eða einhverju öðru liði en ÍR,“ sagði Theódór Ingi Pálmason, sérfræðingur í Seinn bylgjunni.

Henry Birgir spurðu sérfræðingana um framhaldið og hvort að Sebastian Alexandersson muni halda þessu áfram á móti sterkari liðum.

Það má sjá svörin við því og allt innslagið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×