Handbolti

Sunna með sprungu í sköflungi en stefnir á að vera klár fyrir HM-um­spilið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sunna í leiknum gegn Norður-Makedóníu.
Sunna í leiknum gegn Norður-Makedóníu. HSÍ

Landsliðskonan Sunna Jónsdóttir mun ekki spila með ÍBV í Olís-deild kvenna í handbolta á næstunni eftir að hafa meiðst illa með íslenska landsliðinu á dögunum.

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, hefði að öllum líkindum slitið krossband í leik með íslenska landsliðinu í Norður-Makedóníu þar sem liðið tók þátt í undanriðli fyrir HM í handbolta.

Nú er ljóst að Sunna Jónsdóttir er einnig illa meidd en þær komu með báðar til landsins í hjólastól samkvæmt frétt Handbolti.is.

Þar fór Sunna yfir meiðslin sem hún varð fyrir í leiknum gegn Norður-Makedóníu, þau hafi í raun ekki komið í ljós fyrr en í upphitun gegn Grikklandi daginn eftir.

Ætlar sér að vera með gegn Slóveníu

„Ég er mjög svekkt yfir þessu vegna þess að það er svo margt spennandi framundan bæði með ÍBV og landsliðinu. En ef vel tekst til þá á ég möguleika á að ná einhverju af þessu sem framundan er. Ég kem sterkari til baka og ætla mér að ná leiknum gegn Slóveníu í umspilinu fyrir HM.“

Í viðtalinu kemur einnig fram að Sunna hafi strax fundið að eitthvað mikið væri að en ákveðið að harka af sér. Var leikurinn gegn Norður-Makedóníu á föstudaginn var hennar fyrsti landsleikur í þrjú og hálft ár.

Þó svo að Ísland hafi tapað fyrsta leik sínum þá unnust góðir sigrar á bæði Grikklandi og Litáen. Þeir skiluðu íslenska liðinu í umspil um sæti á HM. Ísland mætir Slóveníu um miðjan apríl og sigurvegarinn úr þeirri rimmu tryggir sér þátttökurétt á HM í handbolta sem fram fr á Spáni í desember á þessu ári.

Viðtal Sunnu við Handbolta.is má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×