Handbolti

Elvar á flugi í Frakk­landi | Grétar Ari tapaði naum­­lega

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elvar hefur farið frábærlega af stað í Frakklandi.
Elvar hefur farið frábærlega af stað í Frakklandi. L'est Républican/Patrice Saucourt

Elvar Ásgeirsson og Grétar Ari Guðjónsson léku með liðum sínum í frönsku B-deildinni í handbolta í kvöld. Nancy vann botnlið Angers 28-24 á meðan Nice tapaði með eins marks mun gegn Cherbourg, 32-31.

Síðan Elvar gekk til liðs við Nancy hefur liðið unnið fimm leiki í röð. Alls hefur liðið reyndar unnið sex leiki í röð en það vann leikinn áður en Elvar setti blek á blað í Frakklandi. Í kvöld tók það á móti botnliði Angers og vann nokkuð sannfærandi fjögurra marka sigur.

Nancy var fimm mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 14-9. Í stað þess að stinga af í síðari hálfleik þá tókst gestunum að halda sér inn í leiknum þangað til skammt var til leiksloka, lokatölur 28-24.

Elvar skoraði sjö mörk úr 11 skotum í kvöld og var næst markahæstur í liði Nancy í kvöld. Eftir enn einn sigurinn er Nancy komið upp í 2. sæti deildarinnar með 28 stig að loknum 18 leikjum.

Markvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson var milli stanganna er Nice tapaði með aðeins eins marks mun gegn Cherbourg á heimavelli í kvöld, lokatölur 31-32. Grétar Ari varði níu skot í leiknum og var með 23 prósent þeirra skota sem rötuðu á markið.

Nice er í 7. sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum frá umspilssæti en liðin sem enda í 3. til 6. sæti fara í umspil um sæti í frönsku úrvalsdeildinni á meðan efstu tvö liðin fara beint upp.

Flest lið deildarinnar eiga átta leiki eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×