Körfubolti

Pavel: Uppgötvuðum að þetta er bara eins og hver önnur vinna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pavel Ermolinskij var með tvö stig, tíu fráköst og sjö stoðsendingar í sigri Vals á Tindastóli.
Pavel Ermolinskij var með tvö stig, tíu fráköst og sjö stoðsendingar í sigri Vals á Tindastóli. vísir/hulda margrét

Pavel Ermolinskij, leikmaður Vals, var ánægður með sigurinn á Tindastóli í kvöld. Valsmenn hafa nú unnið þrjá leiki í röð eftir brösugt gengi framan af tímabilinu.

„Þetta er bara vinna sem við höfum lagt inn undanfarin mánuð eða svo. Það var ekkert sérstakt sem gerðist í þessum leik. Ákveðin hugarfarsbreyting átti sér stað hérna og hún skilar sér í því að við spilum betri körfubolta og vinnum leiki,“ sagði Pavel við Vísi eftir leikinn á Hlíðarenda.

Liðsheild Vals var mjög öflug í leiknum í kvöld og margir leikmenn áttu góðan leik.

„Það var alltaf tilgangurinn með þessu liði, þetta átti að vera safn af mönnum sem spila saman og leggja sín lóð á vogarskálarnar. Það var planið en það hefur gengið erfiðlega að fá menn til að sýna sitt besta andlit, að setja þá í réttar stöður til að standa sig,“ sagði Pavel.

„Við höfum unnið í því og besta útgáfan af þessu Valsliði er þetta; að allir skili sínu hlutverki, hvað sem það er.“

Þrátt fyrir að vera komnir á beinu brautina og unnið þrjá leiki í röð er Pavel ekki í nokkrum vafa um að Valsmenn geti orðið enn betri.

„Hundrað prósent. Þakið á þessu liði er með því hæsta í deildinni, ef ekki það hæsta. Við höfum sýnt okkar verstu hliðar en svo uppgötvuðum við að þetta er bara eins og hver önnur vinna. Þetta eru klukkutímar í æfingasalnum, sýna einbeitingu, vilja vera betri og setja ábyrgð á sjálfan sig,“ sagði Pavel.

„Við erum komnir yfir smá hjalla og höfum fengið trú á sjálfum okkur sem var horfin. Sama hversu stór nöfn eru í þessu liði og mikið sjálfstraust, þá var búið að berja það niður. Það er svo bara æfing á morgun og við þurfum að mæta aftur í vinnuna.“


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×