Handbolti

Sjáðu fyrstu mörk Stefáns Rafns fyrir Hauka í 3023 daga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði sex mörk gegn Stjörnunni.
Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði sex mörk gegn Stjörnunni. haukar

Stefán Rafn Sigurmannsson lék sinn fyrsta leik fyrir Hauka síðan 2012 þegar liðið vann nauman sigur á Stjörnunni, 26-25, í Olís-deild karla í gær. Stefán Rafn skoraði sex mörk í leiknum.

Stefán Rafn gekk í raðir Hauka í lok janúar og skrifaði undir þriggja ára samning við sitt gamla félag. Nokkru áður hafði Stefán Rafn fengið sig lausan frá ungverska liðinu Pick Szeged.

Stefán Rafn hefur glímt við erfið meiðsli undanfarna mánuði en það var ekki að sjá á frammistöðu hans í gær. Hann lék nánast allan leikinn í vinstra horninu hjá Haukum, skoraði úr fyrstu fimm skotunum sínum og endaði með sex mörk. Hann var markahæstur í liði Hauka.

Mörk Stefáns Rafns í leiknum í gær má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Mörk Stefáns Rafns gegn Stjörnunni

Fyrsta mark sitt skoraði Stefán Rafn með frábæru undirhandarskoti fyrir utan. Hann skoraði svo tvö mörk úr þröngum færum í vinstra horninu, tvö úr hraðaupphlaupum og eitt úr vítakasti. Sigurður Dan Óskarsson, markvörður Stjörnunnar, sá reyndar tvisvar við Stefáni Rafni á vítalínunni í leiknum.

Leikurinn í gær var fyrsti leikur Stefáns Rafns fyrir Hauka síðan 6. desember 2012, eða í 3023 daga. Haukar unnu þá tíu marka sigur á Aftureldingu, 27-17, og líkt og í leiknum í gær skoraði Stefán Rafn sex mörk. Þá, líkt og nú, var Aron Kristjánsson þjálfari Hauka.

Eftir að hafa skorað 78 mörk í ellefu leikjum fyrir Hauka í N1-deildinni gekk Stefán Rafn í raðir Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi í desember 2012. Hann fór til Álaborgar 2016 og svo til Pick Szeged ári seinna.

Haukar eru með þriggja stiga forskot á toppi Olís-deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Val á þriðjudaginn.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×