Skoðun

Treysti Helgu Guðrúnu best sem formanni VR

Ingibjörg Ásta Gunnarsdóttir skrifar

Engum treysti ég betur til að leiða VR til nýrra sigra í þágu launafólks en Helgu Guðrúnu Jónasdóttur. Helga er kraftmikil kona með mikinn kjark og þor til að takast á við verkefni, bæði stór og smá. Hún er framsýn, með næman skilning á straumum og stefnum líðandi stundar og stórt hjarta sem slær með þeim sem hallað er á.

Harðsnúinn jafnréttissinni

Ég kynntist Helgu þegar við vorum í Háskóla Íslands. Helga lagði stund á stjórnmálafræði og fjölmiðlafræði. Fjölmiðlafræði var þá nýjung í félagsvísindadeild skólans. Það lýsir Helgu að mörgu leyti vel að hún skyldi velja þessa nýju grein og taka með því móti þátt í að ryðja henni braut innan háskólans. Nokkrum árum síðar, á þeim tíma sem hún vann á Skrifstofu jafnréttismála, nýttist henni fjölmiðlafræðin jafnframt vel er hún vann fyrstu kynbundnu fjölmiðlagreininguna sem gerð var hér á landi í samstarfi við kennara í fjölmiðlafræðinni. Þarna sameinaði Helga jafnframt starf og áhugamál, en hún hefur alla tíð verið harðsnúinn jafnréttissinni.

30 ára farsæll ferill

Lungann úr starfsævinni hefur Helga starfað í samskiptum og á hún að baki samtals 30 ára feril sem m.a. upplýsingafulltrúi og samskiptastjóri hjá Bændasamtökum Íslands, Verslunarráði Íslands, B&L bílaumboði og sveitarfélaginu Fjarðabyggð, svo að það helsta sé nefnt. Þá tók hún um árabil þátt í nærsamfélagi Kópavogsbæjar með setu í m.a. félagsmálaráði og lista- og menningarráði sveitarfélagsins og hún hefur verið í forystu stórra samtaka sem formaður Kvenréttindasambands Ísland, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna og stjórnarmaður í Landvernd, svo að dæmi séu tekin. Þá átti hún um árabil sæti í stjórn Vottunarstofunnar Túns, brautryðjanda í lífrænni vottun hér á landi.

Mikil VR kona

Áhugi Helgu á kjaramálum hefur vart farið fram hjá þeim sem hana þekkja. Hún fékk fyrst útrás fyrir þessu brennandi áhugamáli sínu þegar hún tók að sér ráðgjafaverkefni hjá VR vegna innleiðingar á markaðslaunakerfinu. Hún sagði síðar að sú vinna hefði myndað vatnaskil í sýn hennar á íslenska vinnumarkaðinn og VR og hefur hún æ síðan haldið mikilli tryggð við stéttarfélagið. Þetta var um síðustu aldamót. Síðan þá hefur hún tekið virkan þátt í störfum m.a. Félags íslenskra félagsvísindamanna og Bandalagi háskólamanna.

Einn helsti kostur Helgu er hversu jafnréttissinnuð hún er. Hún hefur einlægan áhuga á samferðarfólki sínu og velferð þess og ber eðlislæga virðingu fyrir skoðunum annarra. Hún á fyrir vikið breiðan vina- og kunningjahóp þvert á pólitíska litrófið.

Ég get óhikað mælt með þessari góðu konu sem næsta formanni VR.

Höfundur er skrifstofustjóri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×