Um­fjöllun og við­töl: Stjarnan - Grótta 28-27 | Flautu­mark í Garða­bæ

Andri Már Eggertsson skrifar
Patrekur og hans menn unnu góðan sigur í kvöld.
Patrekur og hans menn unnu góðan sigur í kvöld. vísir/hulda margrét

Stjarnan lék sinn þriðja dramatíska leik í röð í kvöld. Fyrstu tveir var uppskeran aðeins eitt stig en nú unnu þeir leikinn með flautumarki frá Sverri Eyjólfssyni sem var laus á línunni og þakkaði traustið. Stjarnan vann leikinn 28 - 27 og mátti sjá mikla gleði Garðbæinga í leikslok.

Leikurinn hófst þegar rúmlega tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Liðin byrjuðu á að skiptast á töpuðum boltum og klikkuðum skotum sem voru mjög innihaldslaus, staðan var því jöfn 2 - 2 eftir fyrstu tíu mínútur leiksins.

Grótta vaknaði fyrr en Stjarnan og komst þeir í tveggja marka forskot 2-4 sem stóð stutt yfir og var Stjarnan farið að spila betur en í upphafi. Síðan skiptust liðin á að taka forskot leiksins sem var aldrei meira en eitt mark og jafnaði Björgvin Hólmgeirsson leikinn rétt fyrir hálfleik með laglegu marki.

Seinnihálfleikurinn spilaðist með sama máta og sá fyrri, liðin voru skiptust á að taka forskot leiksins. Hafþór Már Vignisson hefur ekkert spilað með Stjörnunni eftir að deildin hófst eftir áramót, Hafþór var í liðinu í kvöld og stimplaði sig inn með ágætri innkomu.

Besti kafli Gróttu í kvöld var þegar þeir lentu þremur mörkum undir. Arnar Daði þjálfari Gróttu tók þá leikhlé sem sneri taflinu algjörlega við og komust Grótta tveimur mörkum yfir 25-27.

Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunar svarar með sama bragði og tók leikhlé á þeim tímapunkti. Stjarnan spilaði þá með aukamann í sókninni sem Grótta átti í erfiðleikum með að leysa og var allt orðið jafnt 27 - 27.

Daníel Griffin tapar boltanum klaufalega sem gaf Stjörnunni tæplega þrjátíu sekúndur til að gera sigurmark leiksins. Sókn Stjörnunar virtist vera að renna út í sandinn þar sem Tandri var búinn að mála sig út í horn en honum tókst að finna Sverri Eyjólfsson á línunni sem skoraði sigurmarkið.

Af hverju vann Stjarnan?

Patrekur tók sitt síðasta leikhlé þegar fimm mínútur voru eftir og liðið tveimur mörkum undir. Stjarnan breytti og fór að spila með aukamann í sókninni sem gekk erfiðlega í fyrri hálfleik en fullkomlega upp á þessum tímapunkti. Stjarnan gerði þrjú mörk ásamt því læsti Adam Thorstensen markinu þar sem Grótta skoraði ekki mark á þessum kafla.

Hverjir stóðu upp úr?

Sverrir Eyjólfsson kom inná í seinni hálfleik og lét mikið fyrir sér fara, Sverrir skoraði í heildina 4 mörk og inn í því er mikilvægasta mark leiksins.

Birgir Steinn Jónsson mætti á sinn gamla heimavöll og átti mjög góðan leik í kvöld, Stjarnan átti í erfiðleikum með að stoppa Birgi og brugðu einu sinni á það ráð að taka hann úr umferð sem er sjaldséð í dag. Birgir Steinn endaði með 6 mörk í kvöld.

Hvað gekk illa?

Bæði lið byrjuðu leikinn mjög illa og var lítið um gæði til að byrja með leiks. Starri Friðriksson reyndi tvisvar á stuttum tíma skraut skot sem Stefán Huldar las auðveldlega ásamt því voru bæði lið að kasta boltanum klaufalega frá sér.

Síðustu 5 mínútur Gróttu gengu mjög illa, þeir áttu fá svör við sóknarleik Stjörnunar ásamt því voru þeir ekki að finna réttu lausninar framhjá Adami sem varði vel.

Hvað gerist næst?

Tæplega tveggja vikna hlé verður gert á Olís deildinni sökum landsleikja-hlés. Deildin fer af stað á nýjan leik þriðjudaginn 16. mars með einum leik á milli Hauka og Stjörnunar klukkan 20:00.

Tæpum sólarhring seinna eigast við Grótta og KA í Hertz höllinni klukkan 19:30 17. mars næstkomandi.

Patrekur: Undir lok leiks átti Tandri að fara í aðgerðirnar

„Það er alltaf gaman að vinna sama hvort um spennuleik sé að ræða eða annað. Grótta spilaði vel í kvöld, þeir hafa verið að vinna flotta sigra til að mynda á móti Selfossi. Við vorum klaufar, fórum illa með yfir töluna, lentum undir á tímabili og var þetta bara mjög jafn leikur sem var gaman að vinna,” sagði Patti ánægður eftir leik.

Leikurinn byrjaði hundleiðinlega þar sem bæði lið voru ekki að finna sinn takt, staðan var 2-2 eftir að tíu mínútur voru liðnar af leiknum.

„Við fengum fín færi, Starri klikkaði á tveimur dauðafærum, stundum þróast leikir svona við sáum þetta í seinasta leik hjá Gróttu, en í endan rættist úr þessum leik.”

Stóra breyting Stjörnunar á síðustu fimm mínútum leiksins var að þeir fóru að spila með aukamann í sókninni sem skilaði þeim góðu framlagi.

„Ég vildi að Tandri færi í aðgerðir frá vinsti sem gekk upp, ásamt því ræddum við um að við þyrftum að þora að keyra upp sóknarlega.”

Hafþór Már Vignisson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna á þessu ári eftir að hafa meiðst í byrjun árs og ekkert geta tekið þátt í leikjum liðsins fram að þessum.

„Það er mjög gaman að fá Hafþór inn í liðið, hann þarf sinn tíma eftir að hafa verið lengi frá vegna meiðsla. Hafþór verið duglegur og er í toppstandi en þarf bara að komast í leik form.

Það vantaði tvo mikilvæga leikmenn í lið Stjörnunnar, hvorki Leó Snær Pétursson né Ólafur Bjarki Ragnarsson gátu verið með liðinu í kvöld vegna meiðsla.

„Leó Snær tognaði aðeins í hálsinum á æfingu sem er ekki alvarlegt en samkvæmt læknisráði spilaði hann ekki í kvöld. Það á eftir að koma betur í ljós hvað verður um Ólaf Bjarka sem er slæmur í bakinu, tíminn mun leiða það í ljós hvort það sé alvarlegt eða ekki.”

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.