Körfubolti

Fóru yfir „rosalega ljótt“ olnbogaskot í leik KR og Fjölnis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lina Pikciuté gefur Unni Töru Jónsdóttur olnbogaskot.
Lina Pikciuté gefur Unni Töru Jónsdóttur olnbogaskot. stöð 2 sport

Sérfræðingum Domino's Körfuboltakvölds finnst líklegt að Lina Pikciuté, leikmaður Fjölnis, sé á leið í leikbann.

Lina gaf KR-ingnum Unni Töru Jónsdóttur olnbogaskot í leik liðanna á miðvikudaginn. Farið var yfir atvikið í Domino's Körfuboltakvöldi í gær.

„Þetta er rosalega ljótt,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir og Ólöf Helga Pálsdóttir tók í sama streng.

„Þetta var virkilega ljótt. Hún [Unnur] er hörkuleikmaður og getur farið mikið í taugarnar á andstæðingnum. Hún leikur sér að því sem er vel gert. En við eigum ekki að sjá þetta.“

Klippa: Domino's Körfuboltakvöld - Olnbogaskot Linu Pikciuté

Unnur Tara sneri aftur í lið KR í síðasta mánuði til að hjálpa því í botnbaráttunni.

„Það sem var jákvætt við þennan leik var að KR var að fá Unni Töru. Hún var einn okkar besti leikmaður og landsliðskona. Þær vinna með fimmtán stigum þegar hún er inn á. Hún kom ótrúlega flott inn í leikinn. Hvað verður nú? Þetta er hættulegt,“ sagði Pálína.

„Svo er þetta líka sorglegt fyrir Fjölni. Það er verið að borga erlendum atvinnumanni fyrir að koma hingað og spila körfubolta og svo hagar hún sér svona. Mér finnst þetta vera umhugsunarefni.“

Ekki er langt síðan Nikita Telesford, leikmaður Skallagríms, var dæmd í tveggja leikja bann fyrir að gefa Hildi Björgu Kjartansdóttur, leikmanni Vals, olnbogaskot í leik liðanna í Borgarnesi.


Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.