Körfubolti

„Þetta er það versta sem ég hef séð til okkar sóknar­lega“

Atli Arason skrifar
Darri Freyr þjálfari KR-inga
Darri Freyr þjálfari KR-inga VÍSIR/VILHELM

Darri Freyr Atlason, þjálfari KR, var afskaplega feginn að hafa náð sigri í Ljónagryfjunni í kvöld eftir það sem var að hans mati einn versti leikur KR liðsins á tímabilinu.

„Maður er ánægður að sleppa með sigurinn, mér fannst bæði liðin léleg í kvöld en við kannski bara aðeins minna lélegir. Sérstaklega í byrjun þriðja leikhluta og það dugði í dag.

Við byrjum leikinn á 1 af 12 fyrir utan, sem þýðir að skot gæðin okkar er ekki fullnægjandi og endum leikinn í 3 af 16. Sem er bæði of lítið af teknum þristum og of lítið af þristum ofan í.

Við þurfum að líta lengi á þennan leik og athuga hvað var að, sérstaklega sóknarlega. Við náðum að harka þetta út af því að við stoppuðum og breyttum þessu í svipað dæmi hinu megin. Þetta er það versta sem ég hef séð til okkar sóknarlega og það með Þórsleiknum meðtöldum,“ sagði Darri Freyr í viðtali eftir leik.

KR-ingum virðast líða mun betur þegar þeir eru fjarri Vesturbænum. KR hefur ásamt Þór AK, Val og Njarðvík tapað flestum heimaleikjum þegar tímabilið er rétt rúmlega hálfnað, alls 4 tapleikir á heimavelli. Liðið hefur aftur á móti unnið alla 6 útileiki sína á tímabilinu, með lang besta árangur allra liða á útivelli. Darri vildi ekki gera of mikið úr þessum góða árangri á útivelli.

„Þetta er bara eitthvað tilfallandi mál. Ég get alveg sagt að þetta séu áhorfendurnir eða eitthvað svoleiðis en tölfræðingurinn í mér er ekki hrifinn af því. Við verðum að byrja að vinna á heimavelli og þá getum við jafnað þetta út,“ svaraði Darri.

Næsti leikur KR er einmitt útileikur, á Sauðárkróki gegn Tindastóll. Darri er ákveðinn að viðhalda 100% útivalla árangri liðsins.

„Auðvitað höldum við það og ætlum að sjá til þess að svo verði. Þetta er heimaleikur fyrir mig þar sem ég er loksins að fara aftur heim á Krókinn. Ég er spenntur að hitta frændur mína á efri hæðinni og sjá hvort þeir hafi ekki eitthvað gáfulegt að segja,“ sagði Darri Freyr Atlason að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.