Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Fram 24-29 | Fram sótti tvö stig í Mosó

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Fram vann góðan sigur í kvöld.
Fram vann góðan sigur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Fram sótti sterkan útisigur gegn Aftureldingu í Varmá í kvöld, 24-29, lokatölur í Mosfellsbænum eftir að staðan var jöfn í hálfleik 12-12.

Heimamenn höfðu öll tök á leiknum í upphafi og komust snemma í fjögurra marka forystu, 7-3. Fram skoraði sitt fyrsta mark á 7. mínútu leiksins og áttu vægt til orða tekið erfitt uppdráttar en Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram tók leikhlé sem skilaði sínu. Fram jafnaði leikinn áður en flautað var til hálfleiks og náðu forystunni í fyrsta sinn í stöðunni 11-12, en jafnt var á tölum í hálfleik 12-12.

Gestirnir héldu áfram þar sem frá var horfið í síðari hálfleik, þeir höfðu góð tök á heimamönnum og komust í fjögurra markaforystu á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks, staðan þá 16-20. Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, tók þá leikhlé og unnu heimamenn næstu 10 mínúturnar þegar að þeim tókst að minnka leikinn niður í eitt mark, 21-22.

Of mikil orka fór í að vinna niður forskot Framara, gestirnir tóku völdin á ný og unnu að lokum öruggan fimm marka sigur, 24-29.

Eitt rautt spjald var í leiknum og það á loka mínútum leiksins þegar Einar Ingi Hrafnsson braut á Breka Dagssyni, með þeim hætti að sækja hann langt út og gefa honum olnbogaskot í andlitið. Breki lá eftir höggið og dómarar leiksins hikuðu ekki við að gefa Einari Inga beint rautt spjald.

Af hverju vann Fram?

Framarar slepptu ekki takinu eftir að hafa unnið sig inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiks. Þeir höfðu yfirhöndina á öllum vígstöðvum, öflugir í sókninni, stóðu vörnina vel og fengu afbragðs markvörslu frá Lárusi Helga Ólafssyni.

Hverjir stóðu upp úr?

Andri Már Rúnarsson var frábær sóknarlega fyrir Fram, gafst ekki upp og var lengi vel eini sem ógnaði eitthvað af viti. Vilhelm Poulsen steig svo upp þegar líða tók á leikinn og endaði markahæstur gestanna með 6 mörk. Sebastian fékk gott framlag frá flestum sínum leikmönnum í dag.

Blær Hinriksson bar af í liði Aftureldingar, var hreint út sagt frábær. Skoraði 7 mörk, með 11 sköpuð færi og þar að auki atkvæðamestur varnarlega.

Hvað gekk illa?

Vörn og markvarsla var ekki til eftirspurnar hjá heimamönnum, einnig dró verulega af þeim sóknarlega þegar líða tók á leikinn. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson átti erfitt uppdráttar gegn sínu gamla félagi og í raun engin sem ógnaði af viti í útilínunni hjá Aftureldingu fyrir utan Blæ Hinriksson.

Hvað er framundan?

Tveir hörkuleikir framundan hjá þessum liðum, Fram fær FH í heimsókn í Safamýrina á meðan Afturelding fer yfir heiðina og sækir Selfyssinga heim í Hleðsluhöllina.

Basti þjálfari Framvísir/ernir

Basti: Við eigum bara að vera við, ekki reyna að vera eitthvað annað

Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram, var að vonum ánægður með sína menn sem sóttu tvö stig í kvöld

„Við erum búnir að leggja gríðarlegan metnað í heimavöllinn og höfum rætt það í allan vetur að einhvertímann þurfum við að taka heimavöllinn með okkur út. Við erum búnir að gera nokkrar góðar atlögur“

„Mér fannst við spila vel á móti Haukum, við spiluðum ekki nógu lengi vel á móti Gróttu en svo kom það í dag. Vonandi gefur þetta okkur trú til þess að fara á fleiri útivelli og sækja stig“ sagði Basti

Þetta er alltaf sama tuggan segir Basti aðspurður út í það hvað hafi skilað þeim sigrinum í kvöld

„Við náðum að spila vörn, fá markvörslu, vera skynsamir í sókn. Við erum ótrúlega klókir einum færri þrátt fyrir að lína hafi verið svona, sem var í lagi því hún virkaði í báðar áttir. Mér finnst bara athyglisvert að það mátti miklu, miklu meira í síðustu leikjum, á móti Stjörnunni og KA. Það er eitthvað sem dómaranefndin má ræða sín á milli.“ Sagði Basti, ósáttur við línuna sem dómararnir, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson settu snemma leiks. Alls voru 13 brottvísanir í leiknum á liðin.

„Enn við ákváðum bara að halda okkur við okkar leik og náðum að spila vel úr stöðunni einum færri, héldum ró og skynsemi“

Framarar mættu illa til leiks en leikar snerust eftir að Basti tók leikhlé

„Ég sagði þeim bara að róa sig, þetta snýst bara um að við séum bara við, ekki reyna að vera eitthvað annað“ sagði Sebastian að lokum

Bræðurnir Ólafssynir ræða málin eftir sigurinn gegn Aftureldingu

Ólafssynir: Loksins komu við heimaleikja stemningunni yfir á útivöllinn

Bræðurnir, Lárus Helgi og Þorgrímur Smári Ólafssynir, mættu saman í viðtal eftir sigurinn á Aftureldingu í kvöld.

„Ótrúlegt en satt þá náðum við að koma þessari heimaleikja stemningu yfir á útivöllinn, loksins“ sagði Lárus Helgi og Þorgrímur bætti við að þeir væru ekki búnir að tapa útileik í mars

En hvað skilaði Fram sigrinum í dag?

„Heilt yfir var þetta rosalega sterk liðsheild“ sögðu þeir saman og héldu áfram að tala um leikinn

„Við byrjuðum rosalega hægt eins og í síðasta leik, en vinnum okkur alltaf meira og meira inn í leikinn bæði varnar og sóknarlega. Heilt yfir er ég bara rosalega ánægður með það hvernig sóknin hefur verið að rúlla hjá okkur í undanförnum leikjum“ sagði markvörðurinn Lárus Helgi, ánægður með sína menn en hann sjálfur var ekki svo slæmur heldur, hann lokaði markinu í seinni hálfleik og endaði með 40% markvörslu, 15 varða bolta.

„Ég viðurkenni það að það þurfti ekki að mótivera mig til að koma hingað og taka tvö stig“

„Það er bara fullt af gaurum þarna sem geta spilað handbolta, það er fínt að geta nýtt liðið svo við hinir séum ekki alltaf dauðir í líkamanum daginn eftir leik“ sagði Þorgrímur Smári, en óvíst var með hans þátttöku í leiknum í dag, hann spilaði þó einhverjar mínútur og skilaði þremur mörkum.

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.VÍSIR/DANÍEL

Gunnar: Lárus Helgi var munurinn á liðunum í dag

„Við gáfum allt í þetta“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, að leik loknum í kvöld

„Ég get ekkert farið fram á mikið meira en það, þeir gjörsamlega gáfu allt sem þeir áttu inni á vellinum. Mér fannst bara munurinn vera markvarslan, Lalli ver vel, sérstaklega í seinni hálfleik“ sagði Gunnar og segir þar Lárus Helga vera muninn á liðunum í dag

„Þrátt fyrir tap þá er margt sem við gerðum vel, ég var ánægður með margt en það fjaraði svolítið undan okkur í seinni hálfleik. Við vorum svolítið þreyttir og kannski fáliðaðir til að klára síðasta korterið“ sagði Gunnar 

Einar Ingi Hrafnsson fékk beint rautt spjald undir lok leiks sem Gunnar var ekki nægilega sáttur með 

„Ég kannski sá þetta ekki nógu vel, hann vildi meina að það hafi verið ýtt við sér, eins og ég segi sá það ekki nógu vel. Enn ég er náttúrulega bara óánægður með að hann hafi fengið rautt spjald, leikurinn var búinn og mér fannst óþarfi að fara í þetta. Menn gera nú mistök, þó hann sé reynslumikill þá gerir hann mistök eins og aðrir“ sagði Gunnar að lokum 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.