Golf

Tiger Woods þakklátur fyrir allar rauðu skyrturnar og svörtu buxurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tommy Fleetwood og Cameron Champ spiluðu báðir í rauðu og svörtu á lokadeginum.
Tommy Fleetwood og Cameron Champ spiluðu báðir í rauðu og svörtu á lokadeginum. AP/Phelan M. Ebenhack

Það fór ekki framhjá Tiger Woods að fjöldi kylfinga klæddust rauðri skyrtu og svörtum buxum honum til stuðnings á lokadegi PGA og LPGA golfmóta um helgina.

Tiger þakkaði fyrir sig með stuttri færslu á Twitter en hann er nú að jafna sig eftir bílslysið sem hann lenti í fyrir viku síðan.

Eitt af einkennismerkjum Tiger Woods er að klæðast rauðu og svört og lokadegi móta og það mátti sjá fjölda kylfinga bjóða upp á þá litasamsetningu.

Tiger hefur unnið fimmtán risamót á ferlinum og er mikil fyrirmyndi hjá yngri kylfingum á mótaröðinni.

„Það er erfitt að lýsa því hversu það snerti mig mikið að kveikja á sjónvarpinu í dag og sjá allar rauðu skyrturnar. Ég vil segja við alla kylfinga og alla aðdáendur mína að þið eruð svo sannarlega að hjálpa mér í gegnum þennan erfiða tíma,“ skrifaði Tiger Woods.

Rory McIlroy, Tommy Fleetwood, Patrick Reed og Tony Finau voru meðal þeirra sem klæddust litum Tigers en það gerði líka Phil Mickelson á PGA Tour Champions viðburði í Arizona sem og Annika Sorenstam á LPGA's Gainbridge mótinu á kvennamótaröðinni, hennar fyrsta LPGA-móti í tólf ár.

„Þetta er bara merki um það að við vildum láta hann vita af því að við erum að hugsa um hann og viljum hvetja hann áfram. Þetta lítur aðeins betur út núna en á þriðjudaginn en hann á lang leið fyrir höndum,“ sagði Rory McIlroy.

„Ef það væri enginn Tiger Woods þá held ég að mótaröðin og öll golfíþróttin væri á verri stað en hún er í dag. Hann skipti okkur miklu máli og gerir það ennþá,“ sagði McIlroy.

Tiger Woods þarf að fara í gengum langa endurhæfingu til að ná sér góðum af fótbrotunum á hægri fæti og óvíst er hvort hann keppi einhvern tímann aftur.

Það var samt gott hljóð í honum samkvæmt upplýsingum erlendra miðla en hann er nú kominn á nýtt sjúkrahús í Los Angeles.

Tiger var að reyna að ná sér góðum eftir uppskurð á baki þegar hann lenti í slysinu og hafði stefnt á það að ná Mastersmótinu í apríl. Ekkert verður að því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×