Viðskipti innlent

Velta Krónunnar aldrei meiri og hagnaður jókst um 22 prósent

Eiður Þór Árnason skrifar
Festi rekur á meðal annars Krónuna og Elko. 
Festi rekur á meðal annars Krónuna og Elko.  Vísir/vilhelm

Festi hagnaðist um tæplega 2,3 milljarða króna á síðasta ári og dróst hagnaður saman frá 2019 þegar hann nam um 2,8 milljörðum króna. Heildartekjurtekjur félagsins af sölu vöru- og þjónustu námu 86,3 milljörðum króna, samanborðið við 85,0 milljarða árið áður.

Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2020 en Festi rekur verslanir og þjónustustöðvar undir merkjum N1, Krónunnar og Elko.

Framlegð af vöru- og þjónustusölu var 20,7 milljarðar króna á síðasta ári en var 20,2 milljarðar króna árið 2019. Var framlegð af vörusölu í fyrra 24 prósent samanborið við 23,8 prósent árið áður. Kostnaður Festi vegna heimsfaraldurs Covid-19 er metinn 394 milljónir króna.

Hagnaður Krónunnar jókst um 21,8 prósent

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, segir að rekstur samstæðunnar hafi gengið vel á síðasta ári þrátt fyrir krefjandi aðstæður þar sem sóttvarnaráðstafanir höfðu mikil áhrif á öll dótturfélögin. Þá segir hann að umsvif Krónunnar hafi aukist á síðasta ári og velta félagsins verið sú mesta frá upphafi. 

Fram kemur í ársreikningi að heildartekjur Krónunnar námu 43,1 milljarði króna á síðasta ári og jukust um 18,3 prósent milli ára. Á sama tíma nam hagnaður verslunarkeðjunnar 902,6 milljónum króna og hækkaði um 21,8 prósent frá 2019.

„Þar kom einnig Snjallverslun Krónunnar til sögunnar sem er snjallforrit sem viðskiptavinir geta nýtt sér vilji þeir gera innkaupin á netinu og fá sent heim. Krónan opnaði þrjár nýjar verslanir á árinu, ELKO og N1 opnuðu nýjar verslanir á Akureyri sem hafa allar hlotið góðar viðtökur,” segir Eggert í tilkynningu.

Elko átti sitt besta ár frá upphafi

Forstjórinn bætir við að N1 hafi fundið mikið fyrir minni umferð á síðasta ári og hruni ferðaþjónustunnar en félagið skilaði 220,1 milljóna króna tapi á síðasta ári.

„Kappkostað var að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu á öllum sviðum og enn eitt árið jukust umsvif bílaþjónustu félagsins. ELKO átti sitt besta ár frá upphafi þrátt fyrir að næststærsta verslun félagsins í Leifsstöð væri nánast lokuð í 10 mánuði árið 2020. Þessa velgengni má meðal annars þakka sterkum innviðum vefverslunar ELKO,” er haft eftir Eggert í tilkynningu.

Eignir Festi námu 83,4 milljörðum króna í lok árs 2020 og var eigið fé 29,8 milljarðar króna. Þá var eiginfjárhlutfall var 35,7 prósent samanborið við 35,3 prósent í lok árs 2019.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og matsbreytingar (EBITDA) nam tæplega 7,1 milljarði króna og dróst saman um rúmlega hálfan milljarð frá 2019.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×