Golf

Tiger Woods var ekki fullur þegar hann klessti bílinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods að spila golf með syni sínum Charlie Woods.
Tiger Woods að spila golf með syni sínum Charlie Woods. Getty/Mike Ehrmann

Lögreglustjórinn í Los Angeles sýslu hefur staðfest það að Tiger Woods var ekki drukkinn þegar hann missti stjórn á bíl sínum á þriðjudagsmorguninn.

Tiger Woods slasaðist illa á hægri fæti í slysinu, hann fékk opið beinbrot, og fóturinn hreinlega kubbaðist í sundur. Hann þurfti að fara í mjög langa aðgerð til að setja fótinn saman á ný þar sem skrúfur og pinni voru sett í fótinn hans.

Allir sem komu að slysinu hafa talað um það að Tier Woods hafi samt verið mjög heppinn að halda lífi í þessu slysi en bílinn slapp meðal annars rétt svo við að enda á ljósastaur.

Tiger var á leið í myndatöku með NFL-stjörnunum Justin Herbert og Drew Brees en slysið var eldsnemma um morguninn að staðartíma.

Lögreglan í Los Angeles sýslu ætlar ekki að kæra Tiger Woods vegna slyssins og telur að hér hafi aðeins verið hreint slys að ræða.

„Hann var ekki drukkinn,“ sagði Alex Villanueva, lögreglustjóri í Los Angeles sýslu og bætti við: „Við getum hætt að hugsa um þann möguleika.“

Hinn 45 ára gamli Tiger Woods var enn að jafna sig eftir bakaðgerð og hefur því ekki verið að keppa að undanförnu. Það verður örugglega langur tími þar til að hann keppir á risamóti aftur ef nokkurn tímann. Svona slæm meiðsli geta haft ýmis vandamál í för með sér og það verður því að koma betur í ljós hvernig Tiger kemur út úr þessu slysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×